Stjúpdóttir er ósátt við að konan sitji í óskiptu búi

Íslensk kona er ósátt við að eftirlifandi kona föður hennar …
Íslensk kona er ósátt við að eftirlifandi kona föður hennar sé að gefa barnabörnunum of miklar gjafir og rýra þannig arf hennar. mbl.is/Thinkstock

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem er ósátt við að kona föður hennar heitins sé að gefa peningagjafir til barnabarnanna og að hennar börn fái meira. 

Sæll Sævar.

Þannig er að faðir minn lést fyrir nokkrum árum. Hann og konan hans höfðu gert með sér svokallaðan arfleiðslusamning sem segir að það þeirra sem lifir lengur megi sitja í óskiptu búi og að því látnu. Verði búinu skipt jafnt á milli barnanna. Hann átti tvö börn og hún tvö, þau áttu engin börn saman. Nú hefur ekkjan verið að gefa peningagjafir til barnabarnanna, bæði hans og hennar, en hún á mun fleiri barnabörn, sem ég vil meina að hafi rýrt búið talsvert. Er henni þetta heimilt? Geta erfingjar hans farið fram á skipti, eða óskað eftir því hjá sýslumanni að tekið verði til þessara peningagjafa og þær þá dregnar af hlut viðkomandi foreldra, þegar þar að kemur? Hvað er best að gera?

Með kveðju, BB

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl BB.    

Meginreglan um ráðstöfunarheimild maka sem nýtur leyfis til setu í óskiptu búi er sú að hann hefur fulla heimild til að ráðstafa eignum búsins til annarra aðila með hverjum þeim hætti sem hann kýs, hvort heldur sem er með sölu eða gjöfum.

Í ljósi þess að faðir þinn mælti fyrir um rétt konu hans til setu í óskiptu búi að honum látnum, sbr. 3. mgr. 8. gr. erfðalaga, geta stjúpniðjar leyfishafans almennt ekki síðar krafist skipta sér til handa líkt og þeim hefði ella verið heimilt.

Hins vegar getur þú sem samerfingi leyfishafa hvenær sem er krafist skipta þér til handa á grundvelli 15. gr. erfðalaga ef fært er sönnur á að leyfishafinn vanræki framfærsluskyldu sína, rýri efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn eða veiti tilefni til að óttast megi slíkra rýrnun. A.m.k. eitt framangreindra skilyrða þurfa að vera uppfyllt.

Á grundvelli 15. gr. erfðalaga er jafnframt unnt að krefjast riftunar á gjafagerningi að vissum skilyrðum uppfylltum. Í lögum er hins vegar ekki finna heimild sem mælir fyrir um að lífsgjafir til annarra komi til frádráttar við skipti á búi en þó er hægt að hafa uppi kröfu um endurgjald úr búinu við skipti ef efni þess hefur rýrnað til muna.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR

mbl.is