„Höfum ekki hundsvit á því hvað við erum að gera“

Ungt par sendir inn fyrirspurn á ráðgjafa um gott samband. …
Ungt par sendir inn fyrirspurn á ráðgjafa um gott samband. Þau hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að þróa slíkt til frambúðar. mbl.is/Thinkstockphotos

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lensenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá pari á þrítugsaldri sem hefur verið saman í ár og langar að þróa sambandið áfram, en hefur ekki hugmyndir um bestu leiðirnar til þess. 

Sæl.

Við erum tvö sem skrifum þetta bréf. Bæði fullorðin skilnaðarbörn. Við höfum verið saman í ár og erum mjög hrifin af hvort öðru, en höfum ekki hundsvit á því hvað við erum að gera. 

Okkur langar að plana framtíðina saman en vitum hvorugt hvernig heilbrigð sambönd eru. Foreldrar X skildu áður en hún fæddist og er hún alin aðallega upp með mömmu sinni. Y er alinn upp hjá bæði pabba og mömmu (vika og vika). En hvorugt þeirra gæti kallast góðar fyrirmyndir þegar kemur að ástarmálum. 

Áttu ráð fyrir ungt fólk í okkar sporum?

Kveðja X&Y.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl og takk fyrir áhugavert bréf.

Þið lýsið veruleika aldamótakynslóðarinnar einstaklega vel. Ég vil hrósa ykkur fyrir fúsleikann, það hvað þið eruð opin og tilbúin að gera betur. 

Það er til mikils að vinna að ná tökunum á því að vera í heilbrigðu og góðu sambandi á því stigi sem þið eruð á og ef hægt er að yfirfæra bandarískar rannsóknir á íslenskan veruleika þá gefa margar þeirra vísbendingu um að þið séuð einmitt á þeim stað þar sem þið ættuð að vera að ræða framtíðina og komast að langtímasamningum um sambandið ykkar. 

Ég lít á sambönd og lífið sjálft sem ferli. Þið getið gert sambandssamning núna og endurskoðað hann síðan með reglulegu millibili. Ef þið standið við ykkar hluta af samningum, þá getið þið verið viss um að þið eruð að æfa ykkur í að vera í heilbrigðu og góðu sambandi. Að skilgreina samband, að vera með heilbrigð mörk og sambandssamning eru hlutir sem mér finnst vera nauðsynlegur partur af heilbrigðu sambandi.

Eins finnst mér mikilvægt að gera samninga um hvernig samskiptin eiga að vera ykkar á milli. Sér í lagi ef ykkur langar að leggja drög að því að halda meðvirkni sem mest út úr sambandinu. 

Sambönd þar sem ásakandi, fórnarlamb og óskýr mörk eru höfð utan við sambandið eru góð sambönd að mínu mati. 

Þegar kemur að því að velja sér fyrirmyndir á þessu sviði, þá finnst mér gagnlegt að þið horfið í kringum ykkur og skoðið hvaða einstaklingar eru í góðum samböndum að ykkar mati. Hvað gera þau? Hvað gera þau ekki?

Þegar kemur að sjálfshjálparbókum, þá er ég hjartanlega sammála ykkur um að þær eru misgóðar. 

Besta leiðin að góðu heilbrigðu sambandi er að þið séuð heilbrigð og góð hvort við annað. 

Ekki hika við að finna ykkur aðila að vinna með sem getur lánað ykkur dómgreind og aðstoðað ykkur við að gera góðan sambandssamning ykkar á milli. Æfið ykkur í að tala vel um hvort annað og pantið tíma hjá ráðgjafa til að leysa úr þeim ágreining sem kemur upp í sambandinu með reglulegu millibili. 

Að verðskulda ást, virðingu og gott samband er eitthvað sem allir ættu að gera að mínu mati. Ekki síst fullorðin skilnaðarbörn!

Mig langar að mæla með tveimur bókum fyrir ykkur. Önnur er fyrir X og er skyldulesning að mínu mati fyrir flottar konur með fjarlægan föður. Hún heitir Fathers and Daughters og er eftir William Appleton. Hin bókin er fyrir Y og heitir It´s a Man´s World and a Woman´s Universe eftir dr. Pat Allen. Hún kennir skemmtilegar leiðir til að tjá sig án þess að detta í ásakanda eða fórnarlambið.

Gangi ykkur sem best.

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál