Þetta getur valdið særindum í ástarsamböndum

Ljósmynd/Unsplash

„Hugsanlega hefur þú heyrt um hin fimm ástartungumál og hugsanlega ekki? Einhver ár eru síðan ég heyrði um hin svokölluðu ástartungumál, en fannst þetta vera einhver gervivísindi. Það er samt sem áður búið að styðja eitthvað við þessa kenningu Gary Chapman með empirískum rannsóknum. Kenningin er sem sagt sú að hver og einn hefur sitt tungumál varðandi ástina, þ.e. hvernig okkur finnst við vera elskuð og verðmetin,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.

Ástartungumálin skiptast í fimm hluta (þú getur séð spurningalistann á tenglinum neðst í greininni)

  1. A) Staðfesting í orðum (Words of Affirmation)
  2. B) Gæðastundir (Quality Time)
  3. C) Fá gjafir (Receive Gifts)
  4. D) Gjörðir/þjónusta (Acts of Service)
  5. E) Snerting (Physical Touch) 

Þetta eru megintungumálin og þau höfða mismikið til okkar sem einstaklinga. Á meðan sumir vilja mikla snertingu og margar gæðastundir vilja aðrir gjafir og þjónustu og enn aðrir fátt annað en hrós fyrir frammistöðu sína, svo dæmi séu tekin. Ef einstaklingar í parasamböndum eru með mjög ólík ástartungumál getur þetta stundum valdið ágreiningi. Þetta fyllti til dæmis mjög mikið í einu sambandi þar sem að konan lagði mikinn tíma og umhugsun í gjafir handa manninum. Hann var búinn að segja henni margoft að hann vildi einungis hana og helst nakta, í rauðum borða. Þetta fór inn um annað og út um hitt hjá henni og gjafaflóðið stoppaði ekki fyrr en þau tóku prófið saman. Þá sá hún að hans aðalástartungumál var gæðastundir og líkamleg snerting var í öðru sæti og gjafahlutinn fékk varla stig hjá manninum hennar. Eftir þetta fóru þau að leggja meiri áherslu á samveru því að hún skoraði einnig hæst þar. Afmælis- og jólagjafir fóru að snúast meira um gæðastundir, líkt og ferðalög sem dæmi.

Þetta er í rauninni mikilvægt varðandi alla þá sem þú átt í sterkum tengslum við. Á hverju þarf barnið þitt mest að halda? Er barnið alltaf að knúsa þig, biðja þig að leika eða bregst sterklega við jákvæðri styrkingu í orðum eða gjöfum? Síðast þegar ég sá ágreininga milli systkina var það vegna þess að eldra  barnið vildi mikið faðma það yngra sem hafði engan áhuga á þessum faðmlögum. Yngra barnið var þó alltaf að biðja um samverustundir með eldra barninu (gæðastundir). Þetta var alvöruágreiningar sem kom oft upp.

Hvað um foreldri þitt? Er foreldri þitt týpan sem er alltaf að faðma þig, gera eitthvað fyrir þig eða er duglegt að tjá sig við þig eða sýnir það ást sína með gjöfum? Hvað sem það er, þá er athyglisvert að skoða hvernig við erum innbyggð upp á samböndin í okkar lífi. Þegar ástartungumálin er mjög ólík í samböndum getur þetta valdið miklum ágreiningi og óvissu. Einn karlmaður hafði orð á því við mig að faðir hans hefði verið mjög sár því að þau systkinin gáfu honum ekki afmælisgjöf. En þau höfðu gengið út frá því að þetta skipti hann engu máli því fyrir þau sjálf þá skipti það engu máli að fá afmælisgjöf eða ekki. En þetta skipti greinilega föður þeirra miklu máli. Þau ákváðu því að gefa honum gjöf án tilefnis eftir að þau heyrðu um ástartungumálin og sáu þá með eigin augun hvað þetta gerði mikið fyrir föður þeirra.

Hugsanlega veldur það minni ágreiningi og styrkir sambönd okkar þegar við skiljum betur hvernig maki okkar, móðir eða systir finnst hún/hann vera elskuð og metin.

Svaraðu þessum spurningum, hvort sem þú ert ein/n eða í sambandi. Ég lofa því að niðurstöðurnar koma þér á óvart! Tekur um það bil 15 mínútur.

HÉR getur þú séð spurningarnar! 

mbl.is