Í mótlæti lífsins skapast tækifæri

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Fór að hugsa um hvernig hægt væri að bæta sig í að bera virðingu fyrir fólki. Hætta að dæma og flokka fólk. Risastór hugðarefni en eru mér hugleikin. Síðan ég lenti í árekstri í lífinu hef ég haft tíma og nýtt hann í að horfa á sjálfan mig í þessum speglum, ef svo má kalla,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Að lenda í gríðarlega erfiðum verkefnum lífsins geta skapast tækifæri. Eitt af mínum tækifærum var að horfast í augu við mitt lífshlaup. Ég kalla þetta tækifæri því í fyrsta sinn í yfir 20 ár settist ég niður og spurði sjálfan mig hvernig og hvers vegna ég væri kominn í þá stöðu sem ég var í.

Fyrsta niðurstaðan var að ég væri meingallað eintak sem einhvern veginn hefði klöngrast gegnum lífið. Auðvitað hefur lífshlaupið ekki verið tómur harmur. Hef lifað ágætu lífi og staðið mig vel í mínu starfi og í lífinu almennt. En burðaðist með sársaukafulla drauga fortíðinnar og mín ómeðvitaða leið til að láta þá ekki hafa áhrif á mig var að þrífast á hraða og spennu. Spennan var mitt fíkniefni. Gat ekki stoppað. Ég vissi ekki betur og þótti þetta eðlilegt. Það sem ég vissi minnst um var ...hver er ég?!

Í hverju fólst  sjálfsvirðing þín spurði mig góður vinur. Samtal okkar var stór vendipunktur. Mig langaði að svara að sjálfsvirðing mín væri bundin við mína persónulegu eiginleika. Nei aldeilis ekki. Varð að játa að mín sjálfsvirðing byggðist algjörlega á því hvort ég stæði mig í til dæmis starfi. Hvort annað fólk myndi hrósa mér og fleira í þessum dúr. Engan veginn bundinn við mínar þarfir eða eiginleika.

Ég hefði aldrei spáð í þetta. Þetta var meðal annars til að ég áttaði mig á ég hefði tækifæri til að byggja  sjálfsvirðingu mína og sjálfsmynd á mér sjálfum. Ef hún byggist ekki á mínu sjálfi þá má segja ég hafi aldrei borið virðingu fyrir sjálfum mér. Því miður er sannleikur í því.

Ég fór að skoða sjálfan mig sem manneskju í samskiptum og umgengni við fólk. Einnig hjónaband og sambúðir. Það hefur verið erfitt en lærdómsríkt. Það er aldrei létt að horfast í augu við galla í eigin fari, hvað þá að viðurkenna þá.

Það er þrældómsvinna að rembast við að vera fullkominn alla daga. Vitandi innst inni að það er ekki hægt. Ég hef reynt að lifa þannig. Eitthvert af ykkur líka. Ekkert að því að viðurkenna það. Í mínu tilfelli var það út af ótta við að gera mistök og verða hafnað. Ekki talinn nógu góður. Þá vantar mikið upp á sjálfstraust og sjálfsmynd.

Ímyndaðu þér frelsið við að geta horfst í augu við brestina, viðurkennt þá og haft tækifæri til að bæta sig sem manneskju? Að ná þessu er ekki létt. Mikil og erfið sjálfsvinna þar sem ég, í mínu tilfelli, varð að brjóta af mér hnausþykkar hrokagrímur, læra að þekkja tilfinningar, læra eðlileg samskipti og ekki síst að læra og tileinka mér auðmýkt.

Ég verð aldrei gallalaus en það er eftirsóknarvert að upplifa mig sem ágæta manneskju þrátt fyrir það. Hætta að einblína á gallana með því að reyna að vera fullkominn.

Óskandi að fólk geti gert þetta án skakkafalla. Ég gat það ekki. Það þurfti algjört niðurbrot í lífinu til að mér tækist að beygja af. Í raun átti ég enga aðra kosti að velja um. En guð minn góður hvað ég er þakklátur í dag. Ég veit að ég er betri manneskja en langt því frá fullkominn og geri mín mistök sem aðrir. Munurinn á mér áður og nú er að ég tek eftir mistökunum og er alltaf tilbúinn að bæta fyrir þau.

Hef í gegnum mín skrif áttað mig á hvað það eru ótrúlega margt fólk sem hefur hlotið skipbrot í lífinu og upplifað áföll eða orðið andlega veikt.

Ég nefndi á undan að í mínu skipbroti hefði ég fengið þetta tækifæri. Fólk nær ekki alltaf að upplifa það. Af hverju ekki? Góð spurning. Reyni að svara.

Ein ástæða er ótti fólks við dómhörku. Ég var svo illa farinn í upphafi míns bata að ég upplifði enga skömm. Kannski ótrúlegt en satt. Hef tekið eftir í viðbrögðum við mínum skrifum að fólk lifir í ótta og á erfitt með að geta stigið skrefin til að leita sér hjálpar eða hjálpa sér sjálft. Öll orkan fer í að lifa af hvern dag. Mér þykir þetta miður en þú yrðir undrandi á hvað hópurinn er stór. Ég er gríðarlega þakklátur þessu fólki það sem það hefur gefið mér með því að þakka mér fyrir að birta pistla og bæði opna mig og ræða um málefni sem fæstir vilja ræða um. 

Já, dómharka. Sér kapítuli út af fyrir sig. Í mínum huga vopn sem fólk notar til að stunda andlegt ofbeldi! Fólk sem heldur inni mikilli reiði er sérfræðingar í dómhörku. Þeir sem dæma harðast er fólk sem líður illa. Nei ekki byggt á könnun heldur reynslu minni og annarra. Dágóður markhópur.

Við gleymum, eða höfum ekki áhuga að athuga, hvað getur leynst á bak við jafnvel indælt bros. Það er varnareðli að sýna ekki raunverulega líðan út á við t.d. í vinnu. Halda andlitinu. Á bak við getur verið manneskja sem hefur upplifað erfið áföll og/eða veikindi. Eins og sagt er ber ör á sálinni. Fólk stígur ekki upp í strætó á morgnana og ber harm sinn utan á sér.

Ég geri ráð fyrir að þeir sem hafa sloppið við meiriháttar áföll í lífinu og ekki þurft að glíma við t.d. andleg veikindi, ætlist til að virðing sé borin fyrir þeirra tilfinningum. Þá ættu þeir sömu að bera sömu virðingu fyrir tilfinningum þeirra sem hafa lent í mótlæti lífsins.

Hvenær rennur upp sá dagur að það þyki ekki tiltökumál að upplýsa alla á til dæmis vinnustað um að þú sért þunglyndur? Án þess að aðrir líti á þig sem verri eða óhæfari manneskju. Því miður er mín reynsla í gegnum samskipti við tugi manns að þetta sé stórvandamál.

Of margir fara með það sem mannsmorð að vera haldnir andlegum sjúkdómi af ótta við fordóma. Með ólíkindum að þetta sé vandamál árið 2020.

Ástæðan? Viðhorf þeirra sem ekki þekkja til. Á vinnustöðum bera yfirmenn ábyrgð sem þeir standa ekki undir út af sömu viðhorfum. Slíkir vinnustaðir eru vígvellir fyrir andlegt ofbeldi ef þekking þeirra sem stjórna er ekki meiri.

Þetta er ekki flókið. Snýst um að bera virðingu fyrir tilfinningum annarra. Hvort sem þú skilur eða ekki. Að beita annað fólk andlegu ofbeldi er fólk sem hlýtur að líða illa. Jú í sumum tilfellum illa innrætt af einhverjum ástæðum. Þó að fólki líði illa réttlætir það ekki að beita ofbeldi. Ástæða en ekki afsökun.

Mér finnst óþægilegt að fá hrokafullan dóm á mig sem manneskju. Hef heldur betur fengið að upplifa það. Það er ömurleg lífsreynsla að upplifa sig berskjaldaðan og varnarlausan. En ég veit betur. 

Það er til bæði fallega og illa innrætt fólk. Ekki leyfa illa innrættum að vaða uppi. Það geta allir breytt viðhorfum sínum og batnandi fólki fer best að lifa. Ég el þá von að það gerist hægt og bítandi með aukinni fræðslu.

Ergo. Þetta byrjar á að ég og allir líti í eigin barm. Hvað get ég gert til að sýna náunganum meiri skilning og kærleik? Hvað getur þú gert?

Læt ég hugsunum mínum lokið í bili. Það er mikil hreinsun á sálinni að koma hugsunum í orð. Að ég sé til í að birta þau er merki um að ég er fullkomlega frjáls gagnvart því sem ég hef ritað. Særir mig ekki þó að einhver fái þörf fyrir að rakka niður skrifin.

Góðar stundir. Takk fyrir að lesa. Ást og friður.

mbl.is