Ósátt við að faðirinn sitji í óskiptu búi

Íslensk kona er ósátt við að faðir hennar sitji í …
Íslensk kona er ósátt við að faðir hennar sitji í óskiptu búi. Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er ósátt við að faðir hennar sitji í óskiptu búi. 

Sæll.

Faðir minn situr í óskiptu búi. Bróðir minn vill að hann flytji í hans hús. Faðir minn er að fara að selja, innbú og eignir hans hafa farið til bróður míns. Þó svo mig hafi langað til að eignast eitthvað eftir móður mína hefur þetta verið gefið til barna bróður míns. Er hægt að gera mig arflausa? Ef þetta fer meira og minna til bróður míns og hans barna??? Við erum tvö systkinin en bróðir minn er kvæntur og á börn og barnabörn. Gott væri að fá greinargóðar upplýsingar um þetta ferli og skiljanlega niðurstöðu.

Kveðja, ein ósátt. 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og eigandi Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður og eigandi Sævar Þór & Partners.

Sæl.

Samkvæmt 35. gr. erfðalaga er einstaklingi sem á börn eða maka óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 eigna sinna með erfðaskrá. Þessi regla bindur alfarið fyrir það að foreldri geti gert barn sitt arflaust, þótt það geti ráðstafað 1/3 eigna sinna til annarra. Einstaklingur sem situr í óskiptu búi ræður einn yfir eignum búsins og getur ráðstafað þeim án samráðs eða samþykkis erfingja, skv. 12. gr. erfðalaga.

Í þessu felst meðal annars heimild til þess að selja fasteign og kaupa nýja eða minnka við sig eins og sagt er. Sama gildir ef sá sem situr í óskiptu búi ráðstafar eignum með lífsgjöf. Þetta er þó háð þeim takmörkunum að sá sem situr í óskiptu búi má ekki gefa óhæfilega háar gjafir úr búinu miðað við efni þess og má ekki rýra eignir búsins með óhæfilegri fjárstjórn.

Hvað fellur undir framangreint er þó ætíð háð tilvikabundnu mati hverju sinni og ekki hægt að svara í almennri fyrirspurn sem þessari. Erfingi sem telur að framangreint eigi við um langlífari maka í óskiptu búi getur krafist þess að búið verið tekið til opinberra skipta og þarf að beina þeirri kröfu sinni til dómstóla. Ber viðkomandi sönnunarbyrðina fyrir fullyrðingum sínum í þeim efnum. 

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is