Er hægt að nota djammið gegn mér?

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni varðandi hegðun barnsfeðra milli umgengni við börn.

Sæll,

ég var að lesa um fyrrverandi makann í neyslu, hvernig er það ef börnin búa ekki hjá föður? Hafa barnsmæður rétt til að gera einhverjar kröfur á hvernig barnsfeður haga sínu lífi milli þess sem þeir eru í umgengni við börnin? Ef ég til dæmis myndi fara til Amsterdam í júní til að djamma, reykja kannabis og jafnvel nota kókaín, væri þá hægt að nota það gegn mér í ágúst eða seinna kannski til að rökstyðja það að ég fái ekki að umgangast börnin mín þó að ég sé alltaf viðeigandi í kringum þau og standi við skuldbindingar gagnvart þeim á þeim tíma sem ég umgengst þau? Ég tel að biturleiki og hefnigirnd knýi oft barnsmæður áfram í því að nota börn sem vopn til að hafa áhrif á líf fyrrverandi maka og finna á þeim höggstað eða jafnvel nýjum maka þeirra. Hvað finnst þér um þessa pælingu?

Kveðja, J

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Kæri J.

Líkt og bent var á í því svari sem þú vísar til ber barnaverndarnefnd að taka afstöðu til þess án tafar hvort ástæða sé til að hefja könnun á máli þegar hún fær tilkynningu eða upplýsingar með öðrum hætti um að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður. Við mat á því hvort rökstuddur grunur teljist vera fyrir hendi um óæskilega háttsemi umgengnisforeldris skiptir m.a. máli hvaðan tilkynningin kemur.

Fari svo að nefndin meti aðstæður með þeim hætti að rökstuddur grunur sé talinn vera fyrir hendi um einhverja þá háttsemi sem kann að ógna velferð barns ber henni að aðhafast. Aðgerð í þá veru kann að vera að krefja umgengnisforeldri um þvagprufu í því skyni að ganga úr skugga um að neysla vímuefna eigi sér ekki stað þegar umgengnin fer fram. Alla jafna mætti fallast á að slíkt væri hvort tveggja eðlilegt og réttmætt enda mikilvægt að staðreyna að neysla vímuefna eigi sér ekki stað í návist barns og að hagir foreldris séu þess eðlis að velferð barnsins sé tryggð.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, lrl, MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is