„Hjónaband er erfitt, að ala upp börn saman er erfitt“

Michelle Obama þurfti að læra að gera sig sjálfa hamingjusama.
Michelle Obama þurfti að læra að gera sig sjálfa hamingjusama. AFP

Fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, segir að í hjónabandsráðgjöf hafi hún lært að hún ber ábyrgð á sinni eigin hamingju, ekki eignmaður hennar Barack Obama.

Hún hefur áður rætt um að þau hjónin hafi farið í hjónabandsráðgjöf, en það var meðal annars umfjöllunarefni hennar í sjálfsævisögu sinni Becoming.

Michelle var gestur Opruh Winfrey á fyrirlestraröð hennar um helgina. Þar ræddu þær meðal annars um hjónaband Michelle. „Hjónaband er erfitt, að ala upp börn saman er erfitt. Það tekur sinn toll,“ sagði Michelle. 

Hún sagði að grunnstoðin í þeirra sambandi hafi alltaf verið vinátta. „Við erum að komast aftur á þann stað þar sem við sjáum hvort annað, því á erfiðari tímabilum í okkar lífi flúðum við, við lifðu það af. Við fórum í gegnum erfiða tíma, við tókumst á við erfiða tíma saman. En núna erum við komin í gegnum það og ég get litið á hann og ég þekki enn eiginmann minn. Hann er enn maðurinn sem ég varð ástfangin af,“ sagði Michelle. 

„Stundum þarf maður bara að fá hlutlausa manneskju til að hlusta á sig. Ráðgjöfin kenndi mér að ég ber ábyrgð á minni eigin hamingju. Ég giftist ekki Barack svo hann myndi gera mig hamingjusama. Enginn annar getur gert mig hamingjusama. Ef við eigum að vera jafningjar í þessu sambandi þarf ég að geta gert sjálfa mig hamingjusama svo ég þurfti að hætta að einbeita mér að því sem hann var að gera og hugsa um hvernig lífi mig langaði að lifa, með eða án Barack. Því betur sem mér tókst að skilgreina mig sem mig, því betri var ég í sambandinu,“ sagði Michelle.

Michelle Obama og Oprah Winfrey á sviðinu um helgina.
Michelle Obama og Oprah Winfrey á sviðinu um helgina. AFP
mbl.is