Hvernig mæti ég óttanum við að vera ein?

Það er eðlilegt að upplifa ótta í kjölfar breytinga.
Það er eðlilegt að upplifa ótta í kjölfar breytinga. mbl.is/Thinkstock

Kona sem hefur nýverið gengið í gegnum skilnað spyr um bestu leiðirnar til að mæta óttanum við að vera ein. 

Sæl.

Mig langaði að spyrja þig hvað er best að þínu mati að gera fyrir konur á besta aldri sem eru að ganga í gegnum skilnað og vilja koma sem best út úr því?

Mér finnst þetta hefðbundna að fara á Tinder, hitta nýjan mann og fara á djammið ekki heilla mig. Var í löngu sambandi með aðila þar sem við vorum búin að reyna allt til að láta sambandið ganga. Hlutirnir héngu lengi á von um breytingar og ótta við að fara út úr hjónabandinu.

Nú stend ég frammi fyrir óttanum og var að spá í hvernig best væri að komast í gegnum það? Það er, hvernig mæti ég óttanum við að vera ein?

Kærleikskveðja, S

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl og takk fyrir þetta fallega bréf.

Mér finnst hugsun þín heilbrigð og skynja að þú hefur þroska og getu til að lifa lífinu sem þig langar að lifa. 

Ég myndi ráðleggja þér að halda þér frá því sem þú nefnir sem óspennandi hluti og halda aðeins af stað áfram inn í lífið. Flestir þeir sem hafa staðið frammi fyrir þeim ótta að vera einir, hafa einmitt áskynjað að margt af því sem þeir óttast er ekki svo slæmt. 

Það er eðlilegt að hlutir sem þú hefur ekki gert áður reynist flóknir í fyrstu. En mundu að æfingin skapar meistarann og það er sjaldnast lagt á okkur mannfólkið meira en við þolum.  

Ég myndi setja allan minn fókus á heilbrigð samskipti og hluti sem vekja upp áhuga þinn. Eins og þú lýsir hér að ofan þá þarftu einmitt að komast í gegnum þennan stað og á betri stað þar sem þér líður vel einni. Það tel ég alltaf vera forsendu fyrir því sem dæmi að fara í nýtt samband. 

Eins finnst mér ekki nauðsynlegt að allar konur eða karlar séu í sambandi. Ég mæli alltaf með því að þú setjir fókusinn á þig fyrst og síðan börnin þín ef þú átt börn. Að þú leyfir þér að setja vinnuna þína ofarlega á listann einnig og finnir leiðir til að umgangast skemmtilegt fólk. 

Tómstundir eru eitthvað sem margir missa út af borðinu þegar þeir ganga í gegnum erfiðleika í hjónabandi og skilnað. Hver eru áhugamál þín í dag? Hefurðu gaman af því að dansa, skrifa eða mála?

Þegar kemur að því að halda áfram að þroskast andlega mæli ég alltaf með að starfa í einhvern tíma með ráðgjafa eða sálfræðingi sem getur bent þér á hluti sem þú ekki sérð sjálf. Eins eru til 12 spora samtök um nánast allt í lífinu.

Ef þú vinnur með ráðgjafa á mínu sviði sem dæmi, þá myndum við fara í gegnum sambandssöguna þína. Skoða mynstur og efla þig í að ástunda það sem þig dreymir um að gera daglega. 

Þú þarft ekki annað fólk til að gera þig að heilli persónu. Hamingjan býr innra með þér. Eins er gott að muna að ást er athöfn jafn mikið og hún er tilfinning. Ef þú leggur þig fram um að elska þig í verki í dag sem og alla daga munu góðir hlutir raðast inn í lífið þitt. 

Ég hef séð kraftaverk gerast á þessu sviði ef fúsleiki er fyrir hendi.

Gangi þér alltaf sem best, 

Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.    

mbl.is