Þarf ég endilega að hitta núverandi eiginkonu míns fyrrverandi?

Stundum getur tímanum verið betur varið í lestur góðra bóka …
Stundum getur tímanum verið betur varið í lestur góðra bóka en að fara inn í aðstæður sem fólk treystir sér ekki til að mati ráðgjafa. mbl.is/AFP

Kona sem hef­ur gengið í gegnum skilnað veltir fyrir sér hvað sé best að gera til að forðast það að hitta nýja eiginkonu fyrrverandi mannsins hennar. Hún biður Elínrós Líndal ráðgjafa um ráð. 

Sæl.

Þarf ég endilega að hitta núverandi konu míns fyrrverandi? Ég er enn þá svakalega reið út af því hvernig hann kom fram við mig bæði í hjónabandinu og skilnaðarferlinu. Núna bráðlega ætlar hann að koma í mitt bæjarfélag með nýju konuna og hitta fullorðin börn sín og ég upplifi að honum finnist sjálfsagt að heimsækja mig með hana en ég er ekki að geta það. Hvað á ég að gera?

X

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl og takk fyrir að senda inn bréfið.

Af því þú vilt fá lánaða dómgreind hjá mér í þessu máli, þá færðu hana hér og nú. Þetta er aðeins mín skoðun og ekki heilagur sannleikur í þínu máli. Enda erfitt að átta sig á hlutunum út frá stuttu erindi sem þessu.

Einfalda svarið mitt við þinni spurningu er að þú þarft ekki að gera neitt sem þig langar ekki til. Þú stjórnar þínu lífi og getur tekið ábyrgð á því hvað þig langar að gera og hvað ekki. 

Mér finnst að þú eigir að gera bara nákvæmlega það sem þig langar við líf þitt og alls ekki að hitta fólk sem þér finnst ekki gaman að hitta. Ef þú ert ósátt við hegðun fyrrverandi eiginmanns þíns og þig langar ekki að hitta hann, þá ertu að mínu mati ekki að gera neinum greiða með því að láta undan hans löngunum og þörfum. Kannski var það einmitt áskorunin í hjónabandinu þínu. Fyrir þig að taka pláss og segja þínar langanir og þarfir. 

Hvaða bæjarfélag áttu?

Við þennan hluta langar mig að staldra aðeins við og benda þér á frábæra bók sem ég myndi lesa til að skilja króka og kima meðvirkni. 

Bókin heitir: Co-dependence: Misunderstood - mistreated og er skrifuð af Anne Wilson Shaef sem starfaði lengi sem sálfræðingur en fór síðar í að sérhæfa sig sem ráðgjafi tengt m.a. meðvirkni. 

Anne Wilson Schaef starfaði sem prófessor í sálfræði og hafði …
Anne Wilson Schaef starfaði sem prófessor í sálfræði og hafði víðtæka reynslu af skólum, sálfræðikenningum og fleiru, áður en hún ákvað að sérhæfa sig í meðvirkni. Bókin er hennar sýn á samfélagið eftir áratuga starf á sínu sviði.

Hún lýsir á dásamlegan hátt hvernig við getum orðið meðvirk, eða öllu heldur hvernig samfélagið elur á meðvirkni á mörgum sviðum. 

Það er hægt að verða frjáls fyrir öðru fólki, stofnunum, bæjarfélögum, hugtökum og í raun öllu í lífinu ef við höfum áhuga á því. Besta leiðin sem ég kann til þess er að skoða hvar hægt er að taka ábyrgð, setja heilbrigð mörk og halda áfram. Sem dæmi gætir þú skoðað hvar þú gafst eftir þín gildi í samskiptum við manninn þinn. Hvar hjónabandið fór að meiða þig þannig að þú berð enn þá gremju gagnvart honum. 

Ef um framhjáhald var að ræða, þá er alltaf erfitt að komast yfir slíkt en ég tel að það sé hægt, svo framarlega sem maður skoðar framhjáhaldið út frá stjórnleysi, meira en svikum. Enda hver heldur fram hjá sem hefur fulla stjórn á ástarlífi sínu? Svarið mitt er enginn! Enda er ást ákvörðun og hjónaband sáttmáli sem maður getur og ætti að koma sér út úr áður en maður svíkur sjálfan sig og aðra. 

Sanngjörn samskipti og að kunna að haga sér í alls konar aðstæðum getur verið forvitnilegt að skoða fyrir alla að mínu mati. En það tekur mikla æfingu að geta verið almennilegur í aðstæðum sem manni finnst óþægilegar. Svo ekki dæma þig þótt þú missir þig stundum í umhverfi sem fer yfir mörkin. Æfingin skapar meistarann og allir í einhvers konar ferli á því sviði. 

Eins er áhugavert fyrir þig að velta fyrir þér hvort það sem þú ert að upplifa sé í raun sannleikurinn. Bað hann um að hitta þig? Vildi hann koma í heimsókn og kynna þig fyrir nýju konunni? Eða er þetta eitthvað sem þú heldur? Eða veist? Eða er þetta eitthvað sem börnin vilja?

Ef þú vilt ekki vera meðvirk, þá stendur þú fyrst með þér og svo með öðru fólki. Ég mæli alltaf með að vera góður fyrir sig í stað þess að vera æðislegur fyrir aðra. Þannig kennir þú börnum þínum muninn á réttu og röngu, og að standa með sér. 

Þú hefur svo ævina alla að læra að fyrirgefa fólki sem fer yfir mörkin þín. Það mun koma rétta augnablikið í lífinu fyrir þig að takast á við það!

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál