Erlend kona hafði aleiguna af nýlátnum afa

Ungur maður kvartar undan því að erlend kona hafi lagt …
Ungur maður kvartar undan því að erlend kona hafi lagt fram erfðaskrá sem ættingjar kannast ekki við. Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá barnabarni manns sem lést 2019. Eftir að afinn féll frá birtist erlend kona með erfðaskrá upp á arminn sem er ekki undirrituð af afanum. 

Sæll Sævar

Þannig er mál með vexti að afi minn lést 2019. Hann átti hluta af lítilli íbúð sem hann talaði alltaf um að móðir mín myndi erfa ásamt bróður hennar. Um mitt ár 2014 kynntist hann erlendri konu en það var aldrei neitt sérstakt samband á milli þeirra. Hún svaf aldrei heima hjá honum og hún var alltaf að reyna að fá hann til að skrifa undir pappíra og færði lögheimilið sitt heim til hans í leyfisleysi. Þetta var allt voðalega furðulegt en hann sleit samskiptum við hana snemma árið 2015.  

Eftir að hann dó þá kom upp erfðaskrá sem á stóð að væri frá 2014 sem þessi kona hafði í höndunum. Hún skilaði [erfðaskránni] inn til sýslumanns sem var skrifuð á bjagaðri íslensku orðuð með orðum sem afi hefði aldrei notað með heftuð fylgirit sem hafa enga undirskrift en [með] tveimur vottum sem voru báðir frá henni.

Í þessari erfðaskrá segir að hann ætli að [arfleiða] þessa konu [að] öllum sínum eignum sem aftur er mjög grunsamlegt vegna þess að hann vissi í grófum dráttum hvernig erfðalögin eru og á tímabili talaði um að [arfleiða] okkur barnabörnin [að] 1/3 af sínum eignum en við sögðum honum að sleppa því þar sem þetta er nú ekki mikill arfur og við barnabörn[in] erum mörg en við höfum ekkert í höndunum til að sýna fram á þetta.

Mínar spurningar til þín eru:

Af hverju tekur sýslumaður þessa erfðaskrá til greina þegar hún er þetta vafasöm?
Er einhver leið til að fá þessari erfðaskrá rift, þegar þetta er eina erfðaskráin sem er til?
Er dómstóla leiði[n] eina leiði[n] sem er í boði? Þar sem þetta er ekki mikill arfur eða um 7 milljónir og að fara fyrir dómstóla kostar sitt.

Takk fyrir svörin,

Atli

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Komdu sæll Atli

Af ákvæði 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sem og athugasemdum í greinargerð er fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 8/1962, leiðir að erfðaskrá er almennt talin gild jafnvel þótt á henni sé augljós annmarki. Þetta þýðir til dæmis að erfingjar geta komið sér saman um að fara eftir efni erfðaskrár þótt hún væri ógildanleg eða haldin formgöllum. Að sama skapi tekur sýslumaður ekki afstöðu til gildis erfðaskráa. Til þess að hnekkja erfðaskrá þarf fyrst að rengja hana skv. 47. gr. erfðalaga. Það er gert með tilkynningu til sýslumanns, eða skiptastjóra eftir atvikum, sem erfingi verður að gera jafnfljótt og tilefni verður til. Þetta þýðir að sá sem vill vefengja gildi erfðaskrár verður að senda slíka tilkynningu við fyrsta tækifæri og dráttur þar á getur haft þau réttaráhrif að andmælin verði talin of seint fram komin. Í kjölfarið þarf að leita eftir ógildingu erfðaskrárinnar fyrir dómi eða með ágreiningsmáli undir opinberum skiptum.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is