Alveg týnd og hrædd um að gera mistök

Ung kona er á krossgötum þegar kemur að framtíðinni. Hún …
Ung kona er á krossgötum þegar kemur að framtíðinni. Hún veit ekki hvaða nám eða frama hún ætti að velja sér. mbl.is/Colourbox

Ung kona sem varla veit hver hún er - er á tímamótum þar sem hún þarf að velja sér frama til framtíðar. Hún leitar ráða hjá Elínrós Líndal ráðgjafa.

Sæl.

Mig langar að spyrja þig að einu. Ég er svo áttavilt þegar kemur að starfi fyrir framtíðina og á erfitt með að velja. 

Ég hef áhuga á mörgu en finnst þetta svo stórt mál að velja háskólanám og frama á  þessum tímapunkti þar sem ég veit varla hver ég er sjálf.

Ég finn fyrir pressu frá samfélaginu varðandi menntun, fjölskyldan er með væntingar líka og ég er alveg týnd og hrædd um að gera mistök.

Ég vil gera hlutina vel þegar ég geri þá og geri því ekkert í málunum í dag. 

Áttu ráð?

Ein í vanda.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sælar.

Mér finnst fátt skemmtilegra en að vinna með stúlkum á þínum aldri að finna hvað þær vilja gera við líf sitt. Það er svo margt sem kemur til greina og að mínu mati nýtist öll reynsla og menntun til góðs ef maður treystir því að dagurinn í dag sé eins og hann á að vera. 

Spurningar sem ég fæ þær til að svara er vanalega hvaða líf þær dreymir um. Þá reyni ég að horfa án fordóma á alla valmöguleika með þeim, við vinnum úr hindrunum, fordómum, meðvirkni og skoðum ef eitthvað stjórnleysi er í gangi í lífinu hjá þeim.

Sem dæmi þá finnst mér aðili sem dreymir um að vera dansari vera að hindra framgöngu sína á því sviði með því að djamma allar helgar. Ekki satt? Eins er aldrei vænlegt að eyða stórum hluta tímans í að eltast við ástina, sem er kannski í stjórnleysi, ef maður stefnir ekki að því að verða eiginkona einvörðungu og húsmóðir í framtíðinni. 

Prófaðu að skrifa niður konuna sem þig dreymir um að vera. Finndu fyrirmyndir í dag sem heilla þig. Hvað eru þær að gera? Hvað gera þær ekki?

Úr hvernig fjölskyldumynstri kemurðu og hvaða hugmyndir hefurðu þaðan um þig?

Ef þú gefur þér leyfi til að vera dýrmæt í dag og byrjar að gera það sem þessi kona sem þig dreymir um að vera gerir daglega. Þá líður ekki að löngu þar til þú munt vera í góðu flæði í lífinu að gera hluti sem fanga athygli þína og áhuga. 

Það er dásamlegt líf að geta lifað af því sem maður elskar að gera. 

Warren Buffet sagði eitt sinn svo skemmtilega að fólk ætti aldrei að vinna einhverja vinnu einungis til þess að græða peninga. Það væri eins og að bíða með að finna ástina þar til þú ert komin á eftirlaun. 

Svo þegar þú hefur fundið það sem þú elskar að gera, finndu þá út hvaða menntun gæti nýst þér á því sviði. Ekki biðja annað fólk um dómgreind á hæfileika þína á þessu sviði. Allt of margir setja ungt fólk sem er að feta sín fyrstu skref undir sig. Menntastofnanir eru ekki undanskildar þessu. Ef þú gerir þitt besta á hverjum degi, ert opin fyrir tækifærum og leyfir þér að prófa hluti sem þú telur að fellur undir áhugasvið þitt, þá muntu upplifa kraftaverk.

Við þurfum öll æfingu í að vera góð í því sem við gerum. Ég þekki það af eigin reynslu og hef farið í gegnum fjölmargar hindranir því tengt. 

Ég hef oft sagt þá sögu þegar ég var beðin um að velja mér annað fag í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands af því kennarinn þar hafði aldrei séð verri texta en minn. En það bjó inni í mér textasmiður og það vissi ég. Svo ég gafst ekki upp og hélt alltaf áfram, þótt þessi skilaboð hafi meitt mig heilmikið á þessum tíma. Vegna þessarar reynslu er ég mjög ákveðin þegar kemur að því að gefast ekki upp fyrir draumum sínum. 

Eins máttu vita að 4. iðnbyltingin er að kalla á öðruvísi reynslu frá fólki. Samskipti, innsæi og reynsla frá mörgum sviðum er eitthvað sem allir ættu að vera opnir fyrir. Það er að mínu mati ekki hægt að gera mistök með vali á námi ef maður telur sig vera að velja það besta fyrir sig hverju sinni. 

Eins finnst mér mikilvægt að vera vakandi fyrir eftirfarandi:

  • Passa svefninn
  • Takmarka notkun samfélagsmiðla
  • Skipuleggja máltíðir yfir daginn
  • Æfa sig í að mæta á réttum tíma í vinnu eða skóla - og fara síðan á réttum tíma heim
  • Ekki læra eða vinna stöðugt í meira en átta tíma án hvíldar
  • Lesa skemmtilegar bækur
  • Stunda áhugamál
  • Velja vini og kærasta vel
  • Vanda það hvernig maður kemur fram við sjálfan sig og annað fólk
  • Skoðaðu hvað þú ert að hugsa yfir daginn
  • Vinna úr verkefnum sem koma upp á tilfinningasviðinu
  • Læra að setja sér og öðru fólki heilbrigð mörk
  • Þora að dreyma, æfa sig, gera mistök og halda áfram
  • Finna aðila sem maður getur treyst fyrir sjálfum sér og verkefnum sínum
  • Ekki fara í samanburð við annað fólk

Gangi þér alltaf sem best. Ég trúi því að þú sért sköpuð til að gera eitthvað mjög skemmtilegt og gagnlegt í þessu lífi. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál