Komst að því að makinn var að halda framhjá

Framhjáhald er mun algengara en margir gætu ímyndað sér. Margir …
Framhjáhald er mun algengara en margir gætu ímyndað sér. Margir eru að fást við verkefni sem enginn veit um. mbl.is/Colourbox

Kona sem komst nýverið að því að maki hennar hefur verið í framhjáhaldi spyr hvað sé til ráða. Hana langar ekki að sambandið fari út um gluggann. Hún leitar ráða hjá Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafa, sem svarar spurningum lesenda Smartlands. 

Sæl.

Maki minn er búinn að standa í framhjáhaldi um nokkurt skeið. Hvað er til ráða? Ég vil ekki að okkar samband sé út um gluggann. Hann segir framhjáhaldið búið, en það er sífellt að koma upp eitthvað nýtt varðandi framhjáhald hans. Leynimakk, annar sími, staðsetningartæki á viðhaldið á meðan við hjónin vorum í fríi saman. Þetta er mikill rússíbani.

Ein ráðalaus.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl og takk fyrir að senda inn bréfið.

Það er ótal margt sem þú getur gert.  

Það fyrsta sem mig langar að segja þér er að þegar upp kemst um framhjáhald, sem hefur  staðið yfir í einhvern tíma, þá upplifir makinn, sá sem er ekki í framhjáhaldinu, áfall.

Stundum kemst aðilinn að margra ára óheiðarleika á einum degi og það er eins og að upplifa  röð áfalla og því eðlilegt að þú upplifir doða, afneitun og alls konar tilfinningar í bland.  

En byrjum aðeins að raða og flokka:

Það að þú viljir halda í hjónabandið og ekki gefa konu úti í bæ sem þú ekki þekkir vald yfir stöðu þinni, öryggi, hjónabandi og ákvörðun um hvort þið verið fjölskylda áfram eða ekki finnst mér bara flott. Vel gert hjá þér. 

Það sýnir mér að þú tekur ekki stjórnleysi eiginmanns þíns neitt sérstaklega persónulega. Enda hefurðu ekkert með þetta að gera. Eða að þú ert á fyrsta eða öðru stigi áfalls, þar sem þú ert í afneitun og/eða dofin. Það skiptir ekki öllu máli og mikilvægt fyrir þig að muna að viðbrögð þín eru eðlileg við óeðlilegar aðstæður.

Eiginmaður þinn sýnir skýrt dæmi ástar- og kynlífsfíknar. Þráhyggjan hans er viðhaldið hans og það hefur líklegast ekkert með þig að gera. 

Það sem þú getur gert í dag er að hlúa að þér sjálfri. Fáðu góðan ráðgjafa til að aðstoða þig, einhvern sem skilur stjórnleysi á þessu sviði og veit leiðirnar sem hægt er að komast í bata. Best er að finna aðila sem hefur eigin reynslu af þessu og er í góðu sambandi í dag. Sá mun ekki dæma þig fyrir ákvarðanir þínar og alls ekki ráðleggja þér hvað þú átt að gera. 

Það þarf líklegast að byggja hjónabandið upp frá grunni aftur. Þú gætir þurft að skoða þína hegðun, þráhyggju, meðvirkni og fleira. 

Ef þú ákveður að vera með eiginmanni þínum áfram þarftu að taka ákvörðun um að vera með veikum einstaklingi. Alla vega fyrst um sinn. Og það er allt í lagi. Það er fullt af flottum konum þarna úti sem eiga alls konar eiginmenn. Það sem sameinar þessar konur er að þær skilgreina sig ekki út frá samböndunum sínum eða eiginmönnum. En til að þeim líði vel verða þær að sýna ástandi maka síns skilning. Leyfa sér og makanum að vera dýrmæt. Þær þurfa að læra að haga sér í aðstæðum sem sumir myndu segja að væri ómögulegt að haga sér í. Að taka ábyrgð á ákvörðun sinni um að vera með aðila í stjórnleysi. Birtingarmyndir stjórnleysis geta verið alls konar. Sumir drekka óhóflega, aðrir halda framhjá, sumir leita óhóflega mikið í vinnu og svo mætti lengi áfram telja. Það er talsvert algengt í samfélaginu í dag að fólk finni sér leiðir til að vera fjarverandi.

Ég hef séð fólk verða mjög veikt, bæði andlega og líkamlega, ef það festist í að fylgjast með ótrúum maka. Sumir tala um meðvirkni, aðrir með-fíkn (e co-addiction). Dr. Ann Wilson Shaef hélt því fram að meðvirkir og með-fíknir yrðu veikari en fíklarnir sjálfir og því er ég sammála.

Ástæðan fyrir því er sú að fíkillinn fær útrás reglulega en aðstandandinn fær fleiri áföll, vonbrigði og sorg inn í kerfið sitt. Það er hringur sem ég myndi ráðleggja þér að stoppa, sér í lagi í ástandi dagsins í dag, þar sem mikil meðvirkni, streita og fleira veikir ónæmiskerfið. 

Ef eiginmaður þinn vill komast út úr þessu ástandi og vinna í sér líka getið þið átt bæði fallegt og gott samband í framtíðinni. En það krefst vinnu, sem ég efast um að þið getið framkvæmt ein. Hann þarf að fara í bata, skilja stjórnleysið, fíknihringinn og fleira í þeim dúr. Þú þarft líklegast að læra að fyrirgefa, finna leið til að vera hamingjusöm, sama hvað hann er að gera, læra að treysta aftur og þar fram eftir götunum.

Það er engin manneskja að fara að fylla tómleikatilfinninguna sem býr stundum innra með okkur mannfólkinu. Rétt eins og kakan, nýi bíllinn, góða hvítvínið og fleira hefur einungis stundaráhrif, en svo brýst veruleikinn fram og við stöndum öll frammi fyrir því að þurfa einn daginn að taka ábyrgð á okkar eigin hamingju. Vera okkar eigin skemmtanastjórar og að læra á hverjum degi að elska okkur og síðan aðra, án skilyrða.

Á opnum 12 spora fundum um stjórnleysi í ástum sérðu einstaklinga sem hafa náð undraverðum árangri á þessu sviði. Það er von fyrir alla. 

Gangi þér vel með verkefnið. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál