5 leiðir til að æfa sig i að hlusta á aðra

Þeir sem kunna að hlusta á annað fólk eru vinsælir …
Þeir sem kunna að hlusta á annað fólk eru vinsælir starfsmenn að mati greinarhöfundar. mbl.is/Colourbox

Eitt af því sem heilar fólk hvað mest í samskiptum er þegar fólk fær óskipta athygli frá öðrum í gegnum hlustun. Í greininni er fjallað um fimm leiðir sem hægt er að fara til að hlusta betur á aðra.

Á vef Womens Health má finna áhugaverða grein um mikilvægi þess að kunna að hlusta á annað fólk. Í greininni viðurkennir Lindsay Geller, ritstjóri lífsstíls- og ástarhluta blaðsins, að hún sé langt frá því að vera góður hlustandi sjálf. 

„Ég trufla fólk sem er að tala. Spyr ónauðsynlegra spurninga og dreg samtalið stundum út úr samhengi. Enda elska ég að eiga samtal við fólk í sagnaformi, þ.e. þegar ég er að segja öðru fólki sögur en ekki öfugt. En ég er ekki ein um það að eiga erfitt með að hlusta á annað fólk.“

Á tímum tæknibyltingar er talað um að fólk sé ekki eins gott í að hlusta og áður. Sem er mjög neikvætt því þeir sem kunna að hlusta eru vanalega vinsælir og rjúka fljótt upp virðingarstigann m.a. í fyrirtækjum ef marka má greinina.

Svona getur þú orðið betri hlustandi:

1. Ekki láta neitt trufla þig

Ef þú ert að klára verkefni í vinnunni og félagi leitar til þín með málin sín, er gott að biðja um nokkrar mínútur til að klára verkefnið. Þannig getur þú verið með óskipta athygli.

Eins er gott að lækka í símanum, loka tölvunni og slökkva á öllu því sem getur truflað samtalið. 

Mikilvægt er að sitja í opinni hlustunarstöðu, án þess að krossleggja hendur og fætur.

Góður hlustandi er aldrei með eigið egó í samtölunum. Að stíga inn í yngri útgáfu af sér, einhvern sem veit ekki allt, er frábær eiginleiki sem góðir hlustendur hafa. 

2. Hvernig hlustun er verið að leita eftir?

Ef maki þinn eða samstarfsfélagi er að ræða við þig um hluti sem virkilega skipta hann máli, þá eru góðar líkur á því að einstaklingurinn sé búinn að velta hlutunum vel fyrir sér. 

Það sem er gott að vita fyrir fram er hvers konar hlustun verið er að leita eftir. Er verið að biðja um ráð? Er verið að leita eftir hugmyndum? Eða langar aðilann bara að láta hlusta á sig?

3. Slökktu á innri rödd þinni

Sama hversu sjarmerandi hugsanir þínar eru, þá geta þær komið í veg fyrir að þú heyrir alveg það sem hinn aðilinn er að segja.

Ef þú ert of upptekin/upptekinn við að ákveða hvað skyldi segja í stað þess að hlusta gætir þú misst af því sem er raunverulega verið að segja.

Ef þú tekur eftir handahreyfingum, horfir í augu þess sem talar og skoðar andlitsdrættina eru meiri líkur á að þú haldir athyglinni. Taktu eftir því hvernig líkami þinn bregst við því sem verið er að segja. Ef maginn herpist saman eða þú færð stirðleika í axlirnar gæti spenna verið að myndast í líkamanum. 

Gott ráð við spennu í samtölum, er að skrifa niður eitt orð, þegar spennan myndast og reyna svo eftir fremsta megni að hlusta af athygli. 

Gott er að skoða það sem skrifað var niður eftir samtalið. 

4. Endurtaktu það sem var sagt

Þegar virk hlustun á sér stað er mikilvægt að hlusta til enda á það sem er sagt og endurtaka síðan það inntak sem maður nær úr samtalinu.

Það er ekki gert til að hæðast heldur til að staðfesta að maður hafi náð því sem var sagt.

Eins er gott að bjóða einstaklingi sem hefur talað að halda áfram þegar hann er hættur að tala. Það gefur virðingu og minnkar spennu í samtölum. 

5. Láttu hlustunina skipta máli

Eftir samtal er gott að gera minnismiða um það sem var verið að biðja um. Sem dæmi ef aðili er beðinn um að taka meira þátt í heimilisstörfum eða á vinnustað, má alltaf setja verkefni inn í dagatal eða síma til að muna hvað skuli gera í kjölfarið. 

Ef þú sýnir virka hlustun, bregst við og býður upp á meira samtal, býrðu til jákvæðni og vinsældir í kringum þig. 

Hver veit nema stöðuhækkun verði á næsta leiti, í það minnsta meiri ánægja í öllum samskiptum við aðra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál