Stunda ekki kynlíf oftar en einu sinni í viku

Konan vill meira frá manninum.
Konan vill meira frá manninum. mbl.is/Getty Images

„Ég og eiginmaður minn erum bæði nýorðin þrítug og höfum verið saman í næstum því tíu ár. Hann er mikið í burtu vegna þess að hann er í hernum. Fyrir tveimur árum hætti ég á getnaðarvörn og kynhvöt mín jókst gríðarlega. Síðustu fimm ár höfum við hins vegar ekki stundað kynlíf oftar en einu sinni í viku, ef þá það. Það á líka við þegar hann er heima í fríi. Ég fæ neitun og hann byrjar sjaldan. Við fullnægjum okkur bæði hvort í sínu lagi. Hvernig lögum við þessi lélegu tengsl? Við elskum hvort annað og hvorugt vill einhvern annan. Við höfum verið að reyna eignast barn síðustu tvö ár en það er erfitt þegar við stundum eiginlega aldrei kynlíf saman,“ skrifar kona sem vill stunda oftar kynlíf með eiginmanni sínum og leitaði ráða hjá Pamelu Stephenson Connolly, ráðgjafa The Guardian. 

Ráðgjafinn bendir konunni á að fjarsambönd eru aldrei auðveld. Slæm kynferðisleg tenging geti bæði verið fjarlægðinni að kenna en einnig getur starfið í hernum haft áhrif. 

„Það lítur út fyrir að þið hafið bæði þróað gott kynlíf í einrúmi frekar en hvort með öðru og ef þið ræðið þetta ekki getur það komið í veg fyrir að þið eignist fjölskyldu. Talaðu við hann á ástríkan hátt, án þess að kenna honum um eða vera í vörn, og reyndu að fá meiri upplýsingar, sérstaklega af hverju hann neitar þér. Hvaða tilfinning er það? Þreyta? Erfiðleikar með örvun eða stinningu? Ágengar hugsanir? Depurð, sektarkennd eða reiði? Kvíði vegna framtíðarinnar? Þrálátir verkir í líkama? Sannleikurinn mun leiða ykkur að svarinu,“ svaraði ráðgjafinn.

Maðurinn er ekki alltaf til í kynlíf.
Maðurinn er ekki alltaf til í kynlíf. mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is