Er óhamingja í hjónabandi heilsuspillandi?

Það getur verið töluverð vinna að finna hamingjuna innra með …
Það getur verið töluverð vinna að finna hamingjuna innra með sér og síðan að ná að deila henni með öðru fólki. Ljósmynd/Colourbox

Elínrós Líndal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafa, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá manni sem veltir því fyrir sér hvor óhamingja í hjónabandi geti verið heilsuspillandi.

Sæl,

Mig langar að spyrja þig hvort að langvarandi óhamingja í hjónabandi geti hreinlega verið heilsuspillandi.  Eg er að tala um mörg mörg ár. 

Kveðja, 

einn verulega óhamingjusamur.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig.

Sæll og takk fyrir góða spurningu. 

Það er að mínu mati afar heilsuspillandi að vera óhamingjusamur lengi hvort sem maður er í hjónabandi eða ekki.

Þessi skoðun mín er staðfest í rannsóknum m.a. dr. Patrick Carnes, dr. Pat Allen og dr. Anne Wilson Shaef.

Eins hef ég upplifað þetta á eigin skinni og séð hjá skjólstæðingum mínum.

Dr. Anne Wilson Shaef hefur gengið einna lengst í staðhæfingum á þessu sviði og eftir að hafa starfað með fólki í áratugi í hjónaráðgjöf sagði hún að ef fólk gerði ekki eitthvað í málunum, þá annaðhvort missti það andlega heilsu sína, líkamlega heilsu eða bæði. 

Að þessu sögðu langar mig að deila með þér minni eigin reynslu á þessu sviði. 

Til eru tveir andstæðir pólar þegar kemur að vandamálum í ást og kynlífi. Annarsvegar er talað um stjórnleysi (e acting out) þar sem fólk er í virkri hegðun sem það getur ekki stoppað. Hins vegar er talað um stjórnleysi sem felur í sér að leyfa sér að vera stöðugt að afneita sér um ást í lífinu (e acting in). Það ástand er kallað ástarmegrun. 

Það er mjög flókið fyrir einstakling að greina eigið mynstur og vanalega þarf maður að hitta pör eða einstakling í nokkur skipti til að átta sig á mynstrinu. Það sem ég sé hins vegar oftast í hjónaböndum í vanda, eru annarsvegar virkir fíknihringir og hins vegar meðvirkni. 

Virkir fíknihringir geta verið ansi lúmskir. Sem dæmi getur eiginkona sem er heimavinnandi virkað til mikillar fyrirmyndar fyrir samfélagið. Hún er dugleg að hugsa um börnin sín, er potturinn og pannan í öllu heima. Mitt á milli húsverkana getur hún verið að dagdreyma um hinn fullkomna mann og afneitar bæði sér og eiginmanni sinni nánd og setur sig daglega undir í hjónabandinu því löngunum hennar og þörfum er ekki sinnt. Þetta er dæmigert ástand ástarmegrunar. Eiginmaður hennar hefur þá kannski fundið sér skjól í vinnu og tómstundum. Hleypur undan eigin tilfinningum með því að vera alltaf upptekinn. Það myndast mikil gremja og flest er ósagt. Síðan þegar börnin fara að heiman sitja þessir einstaklingar skelfingu lostnir fyrir framan hvort annað, án þess að vita hvað þau eiga að segja eða gera.  

Allir sem finna sig í samböndum þar sem þeir eru ekki hamingjusamir ættu að fá lánaða dómgreind á hvað er í gangi hjá sérfræðingi sem er með sérhæfingu á þessu sviði að mínu mati. Eins ætti fólk að fara reglulega í ráðgjöf, en ekki eins og raunin er oftast allt of seint. 

Ef þú skoðar Maslow píramídann (e þarfapíramídinn) þá er grunnurinn að honum líkamlegar grunnþarfir fólks sem eru: Súrefni, matur, vökvi, húsaskjól, hiti, kynlíf og svefn. Þar fyrir ofan er talað um þörfina fyrir öryggi, svo kemur félagslegar þarfir, viðurkenning og loks sjálfsbirtingin eða það stig að finna tilganginn í lífinu. 

Ég geri engan greinamun á fólki sem hefur verið í ástarmegrun í langan tíma og fólki sem er búið að vera lengi óhamingjusamt í sambandi, fólki sem hefur haldið framhjá eða fólki sem er fast í ástarfantasíu. Ég held að allir séu að gera sitt besta enda fer fólk vanalega fljótt í bata þegar fúsleiki til að hætta að stunda það sem meiðir það er til staðar. 

Þau ráð sem ég get gefið þér í dag, er að finna þér góðan ráðgjafa sem kann að lesa í fíknihringi, þekkir fráhald og vinnu með meðvirkni og þar fram eftir götunum.  

Af því þú ert ekki skjólstæðingur minn þá vil ég ekki fara dýpra inn í þessi mál hér í þessu bréfi, en ég á nokkur góð ráð sem hægt er að framkvæma strax í dag sem geta bætt líðan þína töluvert. Enda til mikils að vinna að koma hlutunum fljótt í lag til að efla ónæmiskerfið. 

Ráðin eru:

  • Settu sjálfan þig í fyrsta sætið.
  • Teiknaðu einn stóran hring á blað með nokkrum hringjum í kringum þig. 
  • Láttu stóra punktinn hringinn vera þú og skrifaðu niður manninn sem þig dreymir um að vera inn í hringinn. 
  • Hvað gerir þessi maður daglega?
  • Hvað gerir hann ekki?
  • Láttu hina hringina vera eiginkonu, börn, vinna, félagar og áhugamál.
  • Þegar vandamál koma upp í lífinu þínu, skoðaðu þá teikninguna þína og veltu fyrir þér hvort vandamálið sé þitt eða annarra.
  • Ef vandamálið er annarra, haltu þá vandamálinu innan þess hrings þar sem það á heima. Ekki láta það taka yfir teikninguna þína eða lífið. 
  • Fáðu þér dagbók. 
  • Skrifaðu þakklætalista, helst þrjár síður á fyrstu síður dagbókarinnar. 
  • Þegar erfiðleikar steðja á, lestu þá yfir þakklætislistann áður en þú ákveður að taka ákvarðanir í lífinu. 
  • Skrifaðu fallegan texta um manninn sem þig langar að vera í dagbókina. 
  • Skrifaðu niður það sem hann gerir daglega.
  • Skrifaðu niður hvað hann gerir ekki. 
  • Byrjaðu að vera þessi maður í dag. 
  • Taktu ábyrgð á eigin hamingju og mundu að þú ert þinn eiginn skemmtanastjóri.
  • Reyndu eftir fremsta megni að forðast rifrildi, fólk og aðstæður sem vekja hjá þér stjórnleysi í hugsun og hegðun. 
  • Ef þú átt erfitt með samskipti við maka þinn, reyndu að setjast niður og setja þér heilbrigð mörk. Hvernig samtöl ertu til í að fara í? Hvernig samtöl viltu ekki taka?
  • Ræddu mörkin þín við maka þinn. Viðbrögð hans skipta ekki máli, heldur einvörðungu áætlanir þínar. 
  • Gerðu samning við maka þinn um hvernig þið ætlið að haga ykkur gagnvart hvort öðru. 
  • Stattu við þinn hluta samningsins - sama hvað. 
  • Æfðu þig í að vera góður við sjálfan þig daglega. 
  • Æfðu þig svo í að vera góður við aðra daglega. 

Að lokum langar mig að segja - að lykilatriðið hér að ofan þegar kemur að hjónbandi þínu er að þú standir við þinn hluta samningsins.

Þannig verður þú frábær eiginmaður/kærasti, sama með hverjum þú ert.

Svo eftir einhvern tíma, ef hlutirnir eru ennþá slæmir. Þá getur þú í það minnsta sagt að þú  hafir reynt eins vel og þú gast. Það eru til nóg af heilbrigðum einstaklingum þarna úti og enginn er fastur í sambandi þar sem hann missir heisluna nema að hann velji slikt. 

Þinn bati á þessu sviði er alltaf þín fjárfesting. 

Að vera ljós í lífinu er alltaf sterkasta vopnið. Ef þú átt erfitt með að trúa því, prófaðu þá að slökkva ljósið heima og kveikja á kerti. 

Megi hamingjan í þínu hjónbandi byrja með þér!

Kær kveðja, 

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál