Makinn hagar sér eins og kjáni í fjármálum — hvað er til ráða?

Íslensk kona vill aðskilja sinn fjárhag frá fjárhag makans vegna …
Íslensk kona vill aðskilja sinn fjárhag frá fjárhag makans vegna hegðunar hans í fjármálum. Er það hægt? Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem er að velta fyrir sér hvort hjón geti verið með aðskilinn fjárhag án þess að skilja. 

Sæll Sævar

Mig langar til að spyrja þig hvort hjón geti verið með aðskilinn fjárhag án þess að skilja? Nú er ég gift en myndi gjarna vilja aðskilja fjárhag okkar hjóna vegna óábyrgrar hegðunar maka míns í fjármálum. Við höfum verið samsköttuð alla tíð en ég myndi gjarna vilja skipta upp eigum okkar og skuldum og telja fram sem einstaklingur í framtíðinni, án þess að fara alla leið og sækja um skilnað. Er það mögulegt?

Bestu þakkir, 

KK

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl.

Um fjármál hjóna er fjallað í hjúskaparlögum nr. 31/1993. Samkvæmt lögunum er miðað við að við stofnun hjúskapar verði þær eignir sem hvort hjóna kemur með í hjúskapinn svonefnd hjúskapareign sem skuldheimtumenn beggja geta ýmist gengið að. Með kaupmála geta hjón hins vegar gert tilteknar eignir að séreign annars hvors þeirra. Geta margar ástæður legið þar að baki, t.d. slæm skuldastaða annars hjóna. Kaupmálinn verndar þannig séreign viðkomandi og geta kröfuhafar ekki gengið að séreignum þess maka vegna skulda hins. 

Um skuldir almennt er meginreglan sú að hvort hjóna ber ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla hvort sem þær hafa stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar. Mikilvæg undantekning á þessari reglu er að skattaskuldir eru á ábyrgð beggja hjóna, en ákvæði 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, um samsköttun er undantekning frá fyrrnefndri meginreglu um skipta skuldaábyrgð milli hjóna. Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði tekjuskattslaga bera hjón óskipta sjálfskuldarábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Frá þessari ábyrgð er ekki unnt að víkja með samningi á milli hjóna.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR. 

mbl.is