Hvernig losa ég mig við þessa drulludela?

Það getur verið erfitt að finna leiðina til að vera …
Það getur verið erfitt að finna leiðina til að vera best til staðar fyrir fullorðin börn sem eru að fara í gegnum erfiðleika á ástarsviðinu. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er vanmáttug vegna fyrrverandi tengdasona. Hana langar að losna við þá úr huga sér. 

Sæl og blessuð.

Í rauninni hef ég margar spurningar fyrir þig. Læt nægja eina. Mínar dætur voru í hjónabandi og á síðasta ári kom það í ljós að tengdasynir mínir voru ekki allir þar sem þeir voru séðir. Einn var búinn að ná sér í konu sem á 4 börn, hann á 3 börn með dóttur minni. Hinn var í hórukaupum og rugli og á 2 börn með dóttur minni.

Fá ár eru síðan ég var viðstödd 2 brúðkaup. Þar sem ég er ekki á Facebook hef ég ekki séð síðurnar þeirra, en sá þær í dag. Myndir og allt sem þessum skíthælum fylgir. Ég hef í rauninni grátið í allt kvöld og spyr þig: Hvernig í fjandanum á ég að losa mig við þessa drulludela úr höfðinu á mér?

Að horfa á hjartakomment frá foreldrum þeirra er mér ofviða. Ég vona svo innilega að þessir menn fái að finna fyrir því einhvern tíma á lífsleiðinni. Hvernig þeir hafa svikið, prettað og logið. Barnabörnin finna sko fyrir þessu og að ég tali ekki um mínar dætur!

Þakkir, X

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir spurninguna. 

Mér þykir leitt að heyra að tengdasynir þínir fyrrverandi hafi báðir brugðist dætrum þínum. Það veldur verulegri sorg að sjá á eftir tengdasonum, sem fólk hefur myndað tengsl við og bundið vonir við að umgangast með börnum og barnabörnum inn í framtíðina. 

Þú ert að gera einmitt það sem þarf til að losna við þá úr huga þínum. Að viðurkenna vanmátt þinn á þessu sviði og leita þér aðstoðar. 

Það finnst mér verulega vel gert hjá þér og til fyrirmyndar fyrir aðra. 

Ef þú værir að koma til mín í ráðgjöf myndi ég án efa útskýra fyrir þér stjórnleysi á þessu sviði í lífinu. Ég myndi skoða með þér fjölskyldusöguna þína, meðvirkni og fleira. 

Síðan myndi ég hvetja þig að mæta á 12 spora fundi tengt meðvirkni til að binda utan um þá tilfinningu þína, að þú megir vera hamingjusöm glöð og frjáls, þó að börnin þín séu að fara í gegnum erfiða tíma. 

Ég hef unnið með fjölmörgum einstaklingum sem eru góðir í grunninn en hafa misst taktinn á þessu sviði í lífinu. Það sem þessir aðilar eiga sameiginlegt samkvæmt rannsóknum eru áföll í æsku tengt ástarsambandi foreldra sinna, þeir hafa vanalega allir fengið skilyrta ást í uppeldi sínu og tilheyra vanalega fjölskyldum þar sem fíknivandi og meðvirkni er stór hluti af tilverunni. Fjarverandi faðir og móðir sem er þeirra besti vinur er oft hluti þessarar sögu. 

Þessir einstaklingar eru allir vanmáttugir að finna hamingjuna innra með sér, að setja heilbrigð mörk og að elska út frá ákvörðun.

Stjórnleysi á þessu sviði er algengara en þig grunar. Ef þín fjölskylda fylgir mynstrinu, þá ætti ýmislegt að koma upp ef við færum í gegnum fjölskyldusögu þína og dætra þinna. 

Það er engum um að kenna þegar svona horfir við. En ef konur hafa alist upp við ást og kærleik, heiðarleika og sanngjörn samskipti, þá láta þær karlmenn venjulega vera sem eru í stjórnleysi á þessu sviði. Þeir tala ekki inn í kerfið þeirra og þær eru mjög meðvitaðar um öll rauðu flögginn sem verða í upphafi tilhugalífsins. 

Það fer enginn í gegnum lífið að mínu mati, án þess að fá tækifæri til að læra og þroskast á andlega sviðinu. 

Æðruleysi, fyrirgefning og traust á lífsins verkefni - hrekur alla óboðna gesti út úr huga okkar. Rétt eins og ljósið sigrar alltaf myrkrið og ástin er sterkari en hatrið.  

Kveðja,

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál