Má pabbi senda mér peninga án þess að borga skatt?

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem spyr um peningagjafir frá föður. 

Sæll Sævar. 

Má pabbi minn senda mér pening frá útlöndum (Norðurlöndum) án þess að ég þurfi að borga skatt af þeim peningum og ef já er einhver hámarksupphæð? (á ári?).

Kveðja, F

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl,

í 7. gr. laga um tekjuskatt er svo mælt að skattskyldar tekjur í skilningi laganna séu hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem aðila hlotnast og verða metin til peningaverðs. Það skiptir ekki máli hvaðan þær koma eða í hvaða formi þær eru. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að tekjuhugtak laganna er ansi víðtækt. Í dæmaskyni um skattskyldar tekjur má nefna verðlaun, vinninga í happdrætti og veðmáli, beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undantekningin er þó venjulegar tækifærisgjafir, t.d. afmælis- og brúðkaupsgjafir, svo fremi sem verðmæti þeirra sé ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir.

Til að draga saman þá er afhending peninga til þín af hálfu föður þíns sennilega skattskyld gjöf. Það veltur þó á upphæðinni sem afhent er en ekki er að finna neina skráða ótvíræða reglu á hámarki slíkrar gjafar er kveður á um hvort hún sé skattskyld eða ekki.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is