Þórhallur mælir með tveimur bollum af kynlífi

Þórhallur segir uppskriftina af góðu hjónabandi til rétt eins og …
Þórhallur segir uppskriftina af góðu hjónabandi til rétt eins og aðrar uppskriftir í lífinu. Ljósmynd/Unsplash

Hjóna­nám­skeið sr. Þór­halls Heim­is­son­ar hafa verið vinsæl í áratugi. Þórhallur hefur haldið námskeiðin á öllum norðurlöndum nema í Finnlandi og hér á landi frá árinu 1996. Þórhallur er starfandi prestur í Svíþjóð í dag og er námskeiðið þróað af honum. Nú hafa allt að 10.000 pör farið í gegnum námskeiðið. 

Þórhallur segir að allir sem séu í hjónabandi eða sambúð geti unnið í sambandinu. Samskipti, kynlífið og jafnvel kulnum í kynlífinu, börn, stjúpbörn og fjármál eru viðfangsefni fólks á námskeiðinu. Enda segir Þórhallur margt sem huga þarf innan fjölskyldunnar. 

Ættum ekki að taka hvort öðru sem sjálfsögðum hlut

„Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, verkefnum og æfingum. Grundvallaratriðið er að hvert par á sér sinn rauða þráð, ástina sem einu sinni leiddi þau saman. Það þarf að leggja rækt við ástina og sambandið, annast um það, því gott samband kemur ekki af sjálfu sér. Þess vegna kenni ég svokallaðar „10 leiðir til betra sambands“ sem ég hef þróað og hafa nýst vel.“

Þórhallur segir að kjarninn í sanngjörnum samskiptum á milli fólks sé að fólk taki ekki hvort öðru sem sjálfsögðum hlut, heldur sýni hvort öðru virðingu, umhyggju og skilning. Eins segir hann mikilvægt að fólk styðji við hvort annað.

„Samskipti byggja á jafngirni og sanngirni. Eins skiptir traust og trúnaður miklu máli.“

Þórhallur segir að þó margt hafi breyst í umhverfinu frá 1996 þá segir hann áskoranir fólks lítið breytast.

„Okkur hættir til að gleyma eða hætta að rækta sambandið. Hættum að virða hvort anað og þróumst hvort frá öðru. Sem leiðir þá til þess að einn góðan veðurdag verða þeir er stofna til sambandsins tveir einstaklingar sem ekki lengur þekkja hvorn annan. Svo er ýmislegt sem getur komið upp á, s.s. fjárhagserfiðleikar, áfengisvandi, framhjáhald, stress og afbrýðissemi.“

Verðum að leggja rækt við sambandið

Hvernig er best að leysa þessi mál að þínu mati?

„Ég mæli með leiðunum mínum tíu. Sambandið er einstakt og ef við viljum að það endist, og sé gott þá verðum við að leggja rækt við það. Ekki bara með einhverju stórkostlegu, dýrum gjöfum og utanlandsferðum, heldur í hinu daglega. Að sýna hvort öðru kærleika og umhyggju í gleði og sorg. Pör sem hafa búið saman í 20 til 30 ár segja gjarnan þegar þau eru spurð um hvað það er sem gerði að sambandið þeirra entist svona vel: við erum vinir.“

Hvað telur þú að gott hjónaband hafi?

„Ást, traust og virðingu - og vináttu og húmor. Eins hef ég búið til uppskrift að góðu hjónabandi.“

Í lélegum hjónaböndum skortir ást og virðingu

Hvað einkennir léleg hjónabönd?

„Þeim skortir ást, traust og virðingu - vináttu og húmor. Við getum tekið kynlífið sem dæmi. Oft þegar fólk leitar sér ráðgjafar vegna kulnunar í kynlífi er ástæðuna að finna í því að ástin er kulnuð, virðingin horfin og traustið fyrir bý. Til þess að bæta samskiptin í kynlífinu þarf þá að byrja á því að bæta samskiptin í lífinu, skoða hvað veldur vanlíðan og óhamingju. Og ef tekst að komast fyrir það, ef parinu tekst að finna hamingjuna saman á ný, þá endurspeglast það á ný í kynlífi þeirra.“

Þurfa allir að vera í sambandi að þínu mati?

„Nei, alls ekki. Við erum öll allskonar. Og svo eru sambönd líka allskonar. Við búum saman sem sambúðaraðilar og hjón, gagnkynhneigð eða samkynhneigð eða eitthvað allt annað. Hver og einn þarf að finna sína eigin leið til hamingjunnar og lífsgleðinnar.“

Þurfum að nýta allar stundir og leggja rækt við ástvini okkar

Hver er lykillinn að lífshamingjunni að þínu mati?

„Ég held að lykillinn sé fólgin í því að reyna að vera sáttur við tilveruna og láta gott af sér leiða og rækta samband sitt við bæði fjölskyldu, vini, umhverfið  og náungann. Á dauðastundu held ég að þú sjáir ekki eftir því að hafa ekki keypt þér stærri íbúð eða dýrari bíl - heldur frekar því að hafa ekki nýtt allar stundir til að rækta sambandið við ástvini þína, vini og samferðarmenn.“

Hvað er ást að þínu mati?

„Ást er horfa í augu þess sem maður elskar og hugsa með sér: Þarna er hún lifandi komin, hamingjan.“

Ást og virðing er mikilvæg í samböndum.
Ást og virðing er mikilvæg í samböndum. mbl.is/Colourbox

Uppskrift að góðu hjónabandi
2 bollar af ást.
2 bollar af trausti.
2 bolli hreinskilni

2 bollar kynlíf
2 bolli umhyggja fyrir hvort öðru.
3 dl. húmor
175 g mjúk vinátta
1 1/2 dl. fyrirgefning, gefin og þegin.
3 stórar matskeiðar af virðingu.
2 dl. gagnkvæmur skilningur
2 dl. frelsi
Slatti af hrósi
Bragðbætist með snertingu

Aðferð

„Hrærið öllu varlega saman í stórri skál. Gefið ykkur góðan tíma því annars er hætta á að eitthvað af þurrefnunum gleymist eða hlaupi í kekki. Hellið í fat eða ílát sem ykkur þykir báðum vænt um. Bakist í vinalegu umhverfi og eins lengi og þurfa þykir. Hægt er að krydda og skreyta kökuna allt eftir smekk . Það breytir ekki sjálfri kökunni, en útkoman verður skemmtilegri og persónulegri. Ekki skaðar krem með tilbreytingu að eigin vali. Munið að tala saman um baksturinn, því annars brennur allt við í ofninum.
Berist fram í tíma og ótíma, með bros á vör.“

mbl.is