Mamman er flutt á Sóltún og systkinin rífast um eigur hennar

Hjúkrunarheimilið Sóltún.
Hjúkrunarheimilið Sóltún.

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem er ósátt við háttalag systkina sinna eftir að móðir þeirra veiktist og flutti á hjúkrunarheimili. Hvað er til ráða?

Sæll.

Móðir mín fór á Landspítala vegna veikinda í október síðastliðnum. Hún á húsnæði, við erum sjö systkin og er ágreiningur milli okkar vegna húsnæðis hennar og aðstæðna. Hún  er komin með heimili á Sóltúni því hún fer ekki meir heim. Haldnir hafa verið fundir meðal okkar systkina en ekki næst samkomulag og hefur það endað í að fólk tali ekki saman og þá eru teknar ákvarðanir án þess að allir mæti. Ég hef setið fund þar sem ákvörðun var tekin um húsnæðið og samþykkt, hálfum mánuði seinna var mér sagt að deginum eftir fundinn var ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og átti að láta mig vita daginn eftir sem gleymdist og er ég ósátt. Einn í hópnum sér um fjármálin fyrir hana og er ég ósátt við það og annar aðili en ekki er hlustað á það. Ræður meirihluti eða er nóg að tveir mótmæli?

Kveðja, ÞS

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl.

Í spurningu þinni er þess ekki getið hvort móðir þín hafi verið svipt lögræði eður ei en það getur skipt miklu máli. Algengt er að fólk leggi ekki í þá vegferð að láta svipta foreldri sitt þegar það kemst á aldur og veikist. Reyna þá börnin að sinna hagsmunum viðkomandi saman. Engar sérstakar lagareglur gilda í slíkum tilfellum og ræður þá foreldrið eitt yfir eignum sínum og ráðstöfun þeirra. Við þessar aðstæður getur viðkomandi veitt einu barna sinna eða fleirum umboð til þess að annast ákveðin málefni fyrir sína hönd. Það barna sem hefur slíkt umboð getur þá framkvæmt tiltekna gjörning, s.s millifært peninga eða selt eignir, en aðeins eftir fyrirmælum og óskum foreldrisins.

Hafi viðkomandi verið svipt sjálfræði eða fjárræði, eða hvoru tveggja, þá skipar sýslumaður, sem yfirlögráðandi, lögráðamann sem getur þess vegna verið ættingi eða einhver nákominn. Lögráðamaður tekur allar nauðsynlegar ákvarðanir um þá persónuhagi hins svipta, sem hann er ófær um að taka sjálfur, og eru þær bindandi. Lögráðamanni ber að haga störfum sínum í þágu hins svipta eins og best hentar hag hins svipta hverju sinni. Með sama hætti ræður lögráðamaður almennt yfir fé hans, þar á meðal eignum og öðrum verðmætum, nema lög mæli um á annan veg. Hafi eitt barnanna verið skipað lögráðamaður þá hefur það innan skynsamlegra marka heimild til að sjá um fjármál móður ykkar sem hin eru bundin af.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál