Er eitthvað vit í að vinna í hjónabandinu?

Öll sambönd fara í gegnum erfiðleika. Sum lifa það af …
Öll sambönd fara í gegnum erfiðleika. Sum lifa það af á meðan önnur enda með skilnaði. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá einstakling sem á maka sem vill skilja. Þessi aðili veltir því fyrir sér hvort það sé vit í að vinna í sambandinu og reyna aftur. 

Sæl Elínrós,

Við hjónin stöndum á krossgötum, með hús og lítil börn og heimili, því maki minn segist allt í einu tilfinningalega vera kominn annað eftir tilfinningalega vanrækslu seinustu mánuði. Aðallega vegna annríkis og vill byrja að taka fyrstu skrefin í átt að skilnaði (skilnað af borði og sæng til að byrja með). Þetta kom á óvart (ekki langt síðan við vorum á stefnumóti sem var skemmtilegt). Ég hef reynt að segja maka mínum að við þurfum að reyna að snúa af þessu ferli og finna aftur rætur okkar og byggja upp hjónabandið aftur, til dæmis með ráðgjöf, en maki minn stendur fast á sínu og leggur til fyrirkomulag sem hangir engan veginn saman fjárhagslega. Enginn hjúskaparbrot hafa átt sér stað eða ofbeldi og heimilisreksturinn gengur vel. Er eitthvað vit í að rembast og reyna aftur eða er þetta búið spil?

Kveðja,

S

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl/sæll og takk fyrir bréfið.

Ég lít ekki svo á að vinna skuli í samböndum þegar þau eru alveg að verða búin. Heldur finnst mér að fólk eigi að vinna í sjálfum sér svo lengi sem það lifir. Ef fólk er síðan í samböndum eða hjónabandi, þá ætti sjálfkrafa einnig sambandið að vera í einhverskonar þroska/þróunar ferli. 

Það er erfitt að koma með heildstætt svar út frá þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum í ykkar máli. Stutta svarið mitt er að það er aldrei of seint að vinna í hlutum ef vilji er til þess. Öll sambönd fara í gegnum breytingar og erfiðleika.  

Mín reynsla er sú að þeir sem vilja út úr samböndum hafa vanalega upplifað eitthvað sem fer yfir mörkin þeirra. Stundum er það á yfirborðinu en stundum liggur sársauki í undirmeðvitund fólks og á eftir að koma upp seinna. Eins getur fólk verið með óraunhæfar væntingar eða átt erfitt með að berskjalda sig og opna sig við aðra. 

Það sem þú getur gert er að taka bara ábyrgð á þínum hluta sambandsins og notað orðalag eins og mig langar í stað við þurfum. Það munar heilmiklu. Fyrri staðhæfingin er staðhæfing um langanir þínar og væntingar. Sú seinni um það sem þið þurfið að gera er ekki sönn, því eðli málsins samkvæmt má skilja að lögum og fólki er frjálst að gera það án vandkvæða og með stuðningi. Þó það sé svo sannarlega langt frá veruleika margra. 

Ég er á því að fjármálin leysist að sjálfu sér ef fólk ákveður að taka ábyrgð á sér eftir skilnað. Það borgar sig aldrei fjárhagslega að skilja en þeir sem vilja út úr samböndum setja vanalega tilfinningaleg viðmið ofar þeim fjárhagslegu.  

Það getur verið erfitt að vera til staðar fyrir sambandið, þegar maki þinn vill fara í burtu. Þá þarftu að mínu mati að setja fókusinn á þig. Setja heilbrigð mörk inn í samskiptin ykkar og elska sjálfan þig aðeins meira en hugmyndina um samband við aðra manneskju. 

Ég er á því að maður fær ótal tækifæri til að æfa sig sem kærasta/kærasti. Nýttu hvert augnablik sem þú getur til að vera besta útgáfan af þér. Þú átt allt það besta skilið. Það sama má segja um fjölskylduna þína. 

Gangi þér vel. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is