Hjónabandið er komið í þrot: Hvað er til ráða?

Það getur verið áskorun að húrra upp hamingjuna í samböndum.
Það getur verið áskorun að húrra upp hamingjuna í samböndum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá einstakling sem óttast að sleppa tökunum á hjónabandinu. Makinn er búinn að missa viljann til að vera í sambandinu áfram. 

Sæl.

Eftir mörg ár af námi, barneignum, flutningum, nýjum störfum, framkvæmdum við heimili og að láta takmarkaðan tíma duga höfum við hjónin lengi verið að sigla í ástand „sambýlinga“ sem hittast varla nema upp í rúmi til að fara sofa. Mér finnst eitthvað vera farið að rofa til en maki minn vill gefast upp og segist hafa týnt rómantíkinni í sér og tilfinningum sínum til mín. Við höfum rætt þetta mikið á yfirvegaðan hátt en maki minn haggast ekki og vill að leiðir skilji sem mér finnst fásinna nú þegar strögglið er bráðum að baki. Er til einhver leið til að „þvinga“ rómantíkina inn, jafnvel gegn vilja makans?

Kveðja, 

B

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl/sæll.

Að mínu mati er ást ákvörðun. Svo ef makinn er búinn að týna rómantíkinni og tilfinningunum sínum, þá hefur það lítið með þig að gera. Hvert og eitt okkar þurfum að finna innra með okkur ást á okkur sjálfum, áður en við getum farið að elska aðra á heilbrigðan og fallegan hátt. 

Eins þarf hver og einn að taka ábyrgð á eigin hamingju, vera sinn eiginn skemmtanastjóri og að passa upp á sig á kynferðissviðinu almennt. 

Það besta sem þú getur gert að mínu mati er að setja fókusinn á þig og að gefa maka þínu svigrúm til að finna sig aftur. 

Það getur verið mikil áskorun fyrir suma að húrra upp rómtantíkina gagnvart vinum sínum. Gott samband er hins vegar alltaf byggt fyrst upp á trúnaði, trausti og vinskap og ofan á það verður til rómantík, gott kynlíf og fallegt og skemmtilegt líf. 

Ég held það sé reglan en ekki undantekningin að einstaklingar á ykkar stað fari yfir það í huganum, hvort grasið sé grænna hinum megin. Þegar verkefni lífsins, uppeldi barna og afborganir á húsum er hætt að halda fólki saman. 

Ísland er mikið fjölskylduland, sem er gott og gilt. En það eru hlutir í samfélagsgerðinni sem við þurfum að skoða. Sem er sem dæmi: Lítum við niður á fólk sem er ekki í hefðbundinni fjölskyldu? Samþykkjum við meira en góðu hófu gegnir ofbeldi inni í samböndum, af því okkur finnst svo göfugt að vera í fjölskyldum? Verðum við hissa þegar við sjáum vanda koma upp í fjölskyldum, sem utan frá virka fyrirmyndar fjölskyldur eftir íslenskum gildum? 

Rannsóknir Dr. Ann Wilson Shaef og Dr. Patrick Carnes sýna að stundum geta sambönd og hjónabönd verið svo vanvirk að fólk verður alvarlega veikt á líkama og sál ef það kemur sér ekki út úr þeim. Nú er ég ekki að segja að þitt samband sé þannig. Svo síður sé.

Datt samt í hug að setja þetta inn hér, þar sem ég les á bréfinu þínu vanmátt við að sleppa tökunum og treysta, að hlutirnir geta farið mjög vel þó maður stýri ekki útkomunni sjálfur.

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál