„Hélt á mömmu minni alblóðugri og pabbi var að berja á hurðina“

Guðmundur R. Einarsson, fyrrverandi markaðs- og þróunarstjóri DV, er kominn …
Guðmundur R. Einarsson, fyrrverandi markaðs- og þróunarstjóri DV, er kominn með nýjan vef.

Guðmundur R. Einarsson, fyrrverandi markaðs- og þróunarstjóri DV, hefur tekið við rekstri Fréttanetsins sem áður var í eigu Ellýjar Ármannsdóttur. Í einni af fyrstu fréttunum á vefnum lýsir Guðmundur því hvernig er að vera barn alkóhólista og hvernig sá hópur týnist í kerfinu. 

„Mig langar að opna á söguna mína hér í rituðu máli, með það markið að vonandi ná til fólks sem er fast í þessu helvíti og að það sjái leið út úr ástandinu. Börn alkóhólista hata ekki foreldrana sína, heldur ástandið sem þau eru í.

Flestir sem ég hef talað við eru sammála um að þessi börn þrá mest að fá viðurkenningu á að þetta gerðist og að þetta hafi ekki verið þeim að kenna. Ég hef opnað á þetta áður, að vera barn alkóhólista, og þrái svo innilega að reynslan mín geti hjálpað öðrum.

Ég hef ætíð velt fyrir mér spurningunni: Er alkóhólismi sjúkdómur? Þótt foreldrar mínir, og síðan bræður, hafi orðið sjúkir af alkóhóli og eiturlyfjum þá held ég að ef þau hefðu fengið aðstoð vegna andlegra veikinda eða þunglyndis að þá væru þau lifandi í dag. Báðir foreldrar mínir hafa fallið í baráttunni og líka yngri bróðir minn, sem væri 40 ára í dag ef hann væri á lífi, en hann lést aðeins 29 ára gamall,“ segir Guðmundur í grein á vefnum. 

Hann rifjar upp hvernig slagsmál og óregla hafi verið stór hluti af uppvextinum. 

„Ein minning sem situr fast í mér úr uppvextinum eru slagsmál á heimilinu mínu, þar sem ég hélt á mömmu minni alblóðugri og pabbi var að berja á hurðina hjá mér. Síðan leið yfir mig en ég man að það kom eitthvert fólk heim og við strákarnir vorum settir inn í herbergi. Næsta dag var líkt og þetta hefði ekki gerst. Það var aldrei talað við okkur um þetta. Ég man bara að pabbi fór í meðferð og fékk AA-pening fyrir að hafa verið edrú í nokkrar mínútur (það voru örugglega dagar eða vikur en mér leið eins og þetta væri aðeins í mínútum talið) og ég var svo reiður út í þennan AA-pening. Af hverju var ekki talað við okkur um þetta ástand? Kannski var það reynt og við bræðurnir ekki meðtækilegir fyrir því. Ég vil samt taka fram að ég ber mikla virðingu fyrir AA og Vogi og starfinu sem er unnið þar,“ segir hann. 

Hægt er að lesa frásögnina í heild sinni HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál