Hvað áttu að gera með tinderdeitinu?

Að fara á stefnumót getur verið frábær skemmtun. Þar kynnist …
Að fara á stefnumót getur verið frábær skemmtun. Þar kynnist maður sjálfum sér og öðrum betur. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Nú þegar samfélagið fer að opnast meira og meira með hverri vikunni sem líður getur fólk farið að fara á stefnumót aftur. En hvað er hægt að gera á fyrsta stefnumóti með manneskju sem þú kynntist á stefnumótaforriti?

Notkun stefnumótaforrita hefur aukist mikið á síðustu mánuðum þar sem aðrir staðir þar sem fólk getur kynnst tilvonandi maka sínum voru lokaðir. Það eru því kannski einhverjir þarna úti sem hafa spjallað á Tinder í margar vikur og eru að springa, þá langar svo að fara að hitta manneskjuna.

Þegar um kynni á stefnumótaforriti eða netinu er að ræða er gott að fara pínu varlega á fyrsta stefnumótinu og hittast á hlutlausum stað, eins og til dæmis á veitingastað eða bar. 

Frisbígolf

Frisbígolf er hið fullkomna stefnumót á Íslandi á sumrin. Frisbígolfvelli er að finna víða á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni líka. Það uppfyllir skilyrðin um að hittast á hlutlausum stað og líklegt að það sé fólk einhvers staðar á svæðinu. Ef það gengur vel á stefnumótinu getið þið rölt eitthvað og fengið ykkur kaffi eða eitthvað gott í gogginn. 

Auðveld fjallganga

Fjallganga er hið fullkomna 2. stefnumót, þegar þú hefur gengið úr skugga um að hægt sé að treysta manneskjunni. Við mælum þó með að þú látir einhvern nákominn þér vita hvað þú ert að gera. Létt fjallganga gefur ykkur eitthvert sameiginlegt verkefni til að klára og tækifæri til að kynnast betur í þægilegu andrúmslofti. Ef fjallgangan gengur vel getið þið svo fengið ykkur að borða saman eftir hana.

Ísrölt

Ef þú ert ekki mikið fyrir fjallgöngur gæti göngutúr um hverfið eða bæinn verið fínasti kostur fyrir þig. Þið gætuð jafnvel gengið þar sem ísbúð verður á vegi ykkar og stoppað og fengið ykkur ís. 

Bíó

Fyrir þá sem eru ekki alveg tilbúnir til að koma sér í aðstæður þar sem þarf að tala mikið er bíóferð hið fullkomna deit. Það gefur ykkur líka umræðuefni fyrir og eftir kvikmyndina svo þið ættuð ekki að hafa áhyggjur af að hafa ekkert til að tala um.

Að fara út að borða saman á fyrsta stefnumóti getur …
Að fara út að borða saman á fyrsta stefnumóti getur verið kjánalegt. Ljósmynd/Thinkstockphotos
mbl.is