Hjón að vestan hafa alltaf verið ósátt við erfðaskrána

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem gerði erfðaskrá. 

Sæll. 

Ég og maðurinn minn gerðum erfðaskrá fyrir nokkrum árum og við erum gift. Við eigum börn af fyrra hjónabandi og svo líka barn saman. Við vildum tryggja hvort annað ef annað okkar myndi falla frá. Uppsetningin á erfðaskránni hefur alltaf pirrað okkur og gerðum við athugasemd við hana. Lögfræðingurinn sagði að hún væri rétt svona. Við vildum ef annað okkar fellur frá að það sem eftir lifði fengi 2/3 af eignum maka og börn 1/3.  Í erfðaskránni stendur að sá sem fellur frá á undan arfleiði lifandi maka að 1/3 allra eigna sinna.

Þannig að við spyrjum er þetta rétt svona?  Svarið sem við fengum frá lögfræðingnum var að við gætum bara ráðstafað hvað við gerðum við 1/3 af eigum okkar og maki og börn fengju 1/3 hvort og svo fengi maki 1/3 til viðbótar.  Er þessi erfðarskrá þá rétt og við þurfum ekki að hafa meiri áhyggjur af henni? Ef annað okkar fellur frá erfi maki 2/3 og börn 1/3? Okkur fannst eiga að standa í erfðaskránni ef annað okkar fellur frá erfi maki 2/3 hluta allra eigna minna og börn 1/3. En okkur var tjáð að það væri í lögum að maki erfi 1/3 og börn 2/3 en við gætum ráðstafað 1/3 af hlut barns, annað til dæmis til maka eins og við værum að gera.

Kveðja að vestan.

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Komdu sæl að vestan.

Það er rétt skilið hjá þér að maki erfir 1/3 hluta eigna og börn 2/3 hluta samkvæmt erfðalögum. Þegar skylduerfingjum (börnum og maka) er til að dreifa er óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna með erfðaskrá samkvæmt 35. gr. erfðalaga. Þegar einstaklingur vill ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá er brýnt að orðalag hennar sé skýrt svo ekki fari á milli mála hver vilji viðkomandi hafi verið.

Þetta á ekki síður við þegar einstaklingur vill nýta heimild 35. gr. erfðalaga og ráðstafa 1/3 annað en til skylduerfingja. Í erfðaskrám af því tagi er oft tekið til orða á þá leið að viðkomandi arftaki fái 1/3 af heildar eigum skv. 35. gr. erfðalaga og því sem eftir standi sé skipt skv. almennum reglum erfðalaga eða að viðkomandi arftaki fái 1/3 af heildareignum umfram skylduarf skv. 35. gr. erfðalaga.

Alltént þarf að taka af allan vafa með skýlausum hætti í erfðaskrá. Ég get ekki dæmt um skýrleika þeirrar erfðaskrár sem þið hjónin hafið nú þegar gert án þess að sjá hana. Sé einhver vafi á ferð í þeim efnum, svo sem ráða má af fyrirspurn þinni, mæli ég eindregið með því að þið berið hana undir lögmann.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is