Er að gefast upp á 17 ára syni

Of mikil tölvunotkun getur skaðað börn og ungmenni, þegar þau …
Of mikil tölvunotkun getur skaðað börn og ungmenni, þegar þau týnast í tölvunni og hætta að taka þátt í lífinu. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem á son sem hún hefur áhyggjur af. Hún er hrædd um að hún muni enda á að henda honum út, hann er mikið í tölvunni og tekur ekki þátt. 

Sæl.   

Ég er í vandræðum með 17 ára son minn. Við búum tvö saman og í sirka fimm ár hefur hann falið sig á bak við töluna í tölvuleikjum og umgengnin sem fylgir því er rosaleg, allur matur fer inn í herbergi og svefn verður ruglaður. Ég er búin að tuða í öll þessi ár og það er ekki hlustað á mig og ástandið bara versnar og ekki bætir samkomubannið þar sem þeir eru ekki að hitta vini sína eða fara í skólann. Ég er búin að biðja hann um að bera virðingu fyrir því sem ég er að gera fyrir hann eins og hann hefur stórt herbergi, mat á borðum og stuðning fyrir skólagöngu, eina sem hann þarf að gera er að hafa herbergið hreint og ekki matarleifar í gólfum en honum finnst ekkert að þessu og segist hafa oft hjálpað mér eins og þegar við fluttum fyrir ári síðan og svo þarf hann stunda að halda á matarpokunum. Ég er búin að reyna að senda hann til sálfræðing en hann segir að þeir geti ekki hjálpað neinum og auðvitað er ekkert að honum. Það er ekki langt í 18 ára afmælið og ég er hrædd um að ég bara hendi honum út en ég vil auðvitað að það gerist ekki en ég bara get ekki látið vaða svona yfir mig.

Kveðja, G

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl og takk fyrir bréfið. 

Ég les í gegnum bréfið þitt vanmátt við að setja heilbrigð mörk og samskiptavanda á milli þín og sonar þíns. 

Ég myndi mæla með því að þú myndir skoða nokkur atriði:

Börn fela sig sjaldnast á bak við tölvuskjái. Tölvuleikir eru ákaflega ávanabindandi og ef ekki er sett skýr mörk um umgengni á því sviði, þá má áætla að alltaf þegar barnið ætlar úr tölvuleiknum sé eitthvað í leiknum sem haldi þeim inni. Eins hafa rannsóknir sýnt að heilinn í fólki sem er mikið í tölvuleikjum þroskast á annan hátt. Líkt og hjá fólki í fíkn, þá eflast tengingar í litla heila (viðbragð), en framheilinn sem stýrir rökhugsun, skynsemi og þess háttar er ekki eins virkur. 

Getur verið að hann hafi upplifað einelti, skilnað foreldra sinna eða einhver áföll sem hafa verið þannig að tölvuleikirnir voru á einhverjum tímapunkti frí frá því? Hvað gerðist fyrir fimm árum?

Það er mjög mikilvægt fyrir börn og ungmenni að læra að taka ábyrgð á sjálfum sér hægt og rólega. 

Ég mæli alltaf með því að þegar ungmenni verður 18 ára þá geti það þvegið af sér þvottinn, eldað mat, þrifið og skipulagt dagskrána sína þannig að þeim líði vel með sig. Það gefur þeim svo mikið sjálfstraust og færni áfram inn í lífið. 

Af þeim sökum myndi ég taka fókusinn af því að hann sé að aðstoða þig, og setja fókusinn á að hann sé að læra að taka ábyrgð á sér svo honum vegni betur í lífinu. 

Ég ráðlegg þér að prófa að vinna með góðum fagaðila sem getur aðstoðað þig við að hugsa hvernig fjölskyldulíf þig dreymir um. Er mikið um leik og gleði? Er góður matur eldaður og síðan horft á skemmtilega mynd? Er setið við borðið og talað saman? Eru gestir að koma í heimsókn? Eru allir að taka þátt?

Eins eru til áhugaverðir stuðningshópar þar sem fókusinn er settur á meðvirkni. Ég sé í auknum mæli fólk koma inn í svona hópa í tengslum við tölvunotkun í fjölskyldunni. 

Að lokum langar mig að minna þig á að stundum getur foreldrahlutverkið reynt verulega á okkur. Ég á skemmtilega sögu af syni mínum að deila með þér og tónlistarnáminu hans. Ég var í mörg ár með hann í Suzuki-tónlistarskólanum. Barnið hafði ekki nokkurn áhuga á klassískri tónlist og ég var oft með svakalegt samviskubit þegar ég sat og spilaði á píanóið og var að fá hann með mér í það. Eftir fjöldamörg ár gafst ég upp á þessari hugmynd minni um að öll börn ættu að læra á hljóðfæri. 

Í dag starfar þessi ungi maður m.a. við að gera tónlist. Hann segir Suzuki-námið eitt það dýrmætasta sem ég hafi gefið honum í uppeldinu. 

Þessi saga finnst mér endurspegla hlutverk okkar foreldra. Ég þekki ekki mörg börn sem elska að taka þvottinn sinn, elda matinn, ganga frá og taka virkan þátt. Síðan þegar þau fara út í lífið, þá eru þetta atriðin sem gera þau sjálfsörugg. Hlutirnir sem þau kunna virkilega að meta.

Þetta veit ég fyrir vissu, því ég hef hjálpað mikið af ungu fólki sem er að fóta sig í lífinu og hafa þurft að fara að heiman of snemma. Þetta eru einstaklingar sem þrá að sjá um sig sjálf en hafa ekki getuna eða kunnáttuna til að gera það. Þau koma frá vanvirkum heimilum þar sem fjölskyldan gerði ekki hlutina saman og þau fengu enga kennslu í að verða fullorðin. 

Þá byrja ég vanalega á því að spyrja þau um langanir og drauma sína. Síðan bið ég þau um að skrifa niður hvernig persóna þeim dreymir um að vera og hvað þessi persóna gerir daglega. Margir þessara einstaklingar hafa einmitt verið að nota eitthvað sem aðstoðaði þau í gegnum erfiða tíma, óhóflega eða á skaðlegan hátt. 

Þegar þau sjá það með eigin augum að sumt af því sem þau eru að gera yfir daginn, er eitthvað sem draumamanneskjan myndi aldrei gera, þá eru þau til í að skoða að hætta að gera hlutinn.

Einföldustu verkefni geta gefið okkur mikla vellíðan. Svo sem að búa um rúmið okkar og fara í fótabað á kvöldin í staðinn fyrir að hanga á samfélagsmiðlum eða í tölvunni.

Mér finnst ungt fólk á Íslandi einstakt. Ég hef einnig séð fjöldann allan af ungu fólki sem á einhverjum tímapunkti missti stjórn á sér í tölvuleikjum, ná tökum á því og nýta hæfni sína í upplýsingatækni eða tölvuleikjaframleiðslu. Sjáðu CCP og alls konar fyrirtæki sem hafa sprottið upp í tengslum við það. 

Þess vegna myndi ég varast að alhæfa of mikið neikvætt í garð tölvuleikja, því þeir eru ekki alslæmir ef við kunnum að haga okkur í kringum þá. 

Eitt er víst að ef hann er snillingur í tölvuleikjum, getur hann öðlast svipaða færni á mörgum öðrum sviðum í lífinu. 

Gangi ykkur alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is

Bloggað um fréttina