Ég held að konan mín sé að falla fyrir öðrum manni

Í uppeldi margra karlmanna vantar þjálfun í að berskjalda sig. …
Í uppeldi margra karlmanna vantar þjálfun í að berskjalda sig. Maður sigrar ekki né tapar í ástum. Góður maki er gulls ígildi. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem veltir fyrir sér hvort hann eigi að sætta sig við að tapa konunni sinni í fangið á öðrum manni. 

Hæ,

ég hef sterkan grun um að konan mín sé að falla fyrir manni sem er búinn að vera mikið viðloðandi fjölskyldu okkar og hefur hjálpað með ýmislegt seinustu vikur í öllum lokununum. Hún er orðin fjarlægari mér en nokkurn tímann. Ég vil ekki ásaka hana um neitt og hún neitar að þessi maður sé ástæða einhverra breytinga hennar í viðhorfi hennar til mín. Magatilfinning mín er samt sú að koma honum í burtu en hugsa um leið að hún finni sannfærandi ástæður til að halda í hann. Hvað er hægt að gera í stöðunni? Á ég að sætta mig við tap?

Kveðja, K

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæll og takk fyrir bréfið. 

Ég held þú getir tekið innsæi þínu alvarlega og að allir eigi í raun að hlusta á tilfinningar sínar í aðstæðum þar sem eitthvað þessu líkt er að koma upp.

Það eru nokkrir hlutir sem ég hnýt um í bréfinu þínu. 

Í fyrsta lagi er ást ákvörðun og ekki tölvuleikur sem maður sigrar eða tapar í. Alls konar hlutir gerast í lífinu og þarf maður að ákveða að velja maka sinn aftur og aftur, sama hvað gerist. Ef maður ætlar að vera í hjónabandi með honum. Góð sambönd eru ekki alltaf dans á rósum. 

Þess vegna myndi ég ekki líta á þetta sem tap heldur tækifæri til að berskjalda þig og segja hvernig þér líður. Þetta er konan þín í dag og það er sannleikurinn í málinu. Það sem hún er að hugsa er erfitt að átta sig á. Ég mæli með að fólk æfi sig í að segja frá tilfinningum sínum í fjórum setningum eða svo. Ekki halda ræðu, yfirlestur eða ásaka, né heldur detta í fórnarlambið. Setningar eins og: Ég elska þig og langar að halda áfram að þróa hjónabandið okkar. Ég hef verið óöruggur undanfarið af því ég hef óttast að þú sért að falla fyrir öðrum manni. Getur þú sagt mér hvernig þér líður?

Nú skil ég ekkert hvað þessi aðili er að gera heima hjá ykkur. Hverju er hann að taka ábyrgð á hjá ykkur? Er áhugavert að skoða heilbrigð mörk í þessu samhengi?

Er þetta eitthvað sem þú ættir kannski að vera að gera sjálfur, hún kannski, eða gæti verið að einhver sé að rugla hjálpsemi saman við ást?

Grunnurinn að góðu sambandi finnst mér alltaf vera að taka ábyrgð á sér og elska sig án skilyrða og elska svo maka sinn með skilyrðum sem eru þá þessi heilbrigðu mörk sem við setjum inn í sambandið.  

Að taka ábyrgð á öðru fólki er meðvirkt að mínu mati. Svo ekki hika við að setja heilbrigð mörk, segja konunni þinni að þú elskir hana og binda utan um þetta atvik og halda síðan áfram.

Nú ef konan er komið annað í huganum, þá er ekkert annað í stöðunni en að gefa henni svigrúm til að finna út hvað hún ætlar að gera þessu tengt. Þú værir þá ekki að tapa frekar en hún væri að tapa þér. Svo haltu bara áfram að æfa þig í að vera góður kærasti eða eiginmaður og þá eykst öryggi þitt í sambandinu og sjálfsvirðing. 

Góður maki er ekki endilega sá sem er alltaf í góðu skapi að mínu mati. Góður maki er sá sem stendur við hjónabandssamninginn, berskjaldar sig, talar um langanir og væntingar, segir sannleikann, tekur mörkum, setur mörk, hugsar vel um sjálfan sig, er til staðar fyrir sig og aðra og þar fram eftir götunum. 

Gangi þér alltaf sem best.

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál