Fólk haldi sig við sína reglubundnu bólfélaga

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mælir með því að fólk haldi sig …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mælir með því að fólk haldi sig við sína reglubundnu bólfélaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalækirnir mælir með því að fólk haldi sig við sína reglubundnu bólfélaga á næstu misserum. Svarið gaf Þórólfur við spurningu Björns Inga Hrafnssonar blaðamanns á blaðamannafundinum nú klukkan 14, þegar Björn Ingi spurði hvort sóttvarnalæknir mælti með því að einhleypir fyndu sér bólfélaga.

Dönsk stjórnvöld hafa hvatt landsmenn til að vera duglegir að stunda heimaleikfimi til að stytta sér stundir. Þá hafa hollensk stjórnvöld gefið út þau tilmæli til einhleyps fólks í ástarleit á veirutímum að finna sér reglulegan bólfélaga til að forðast einmanaleika. 

Björn Ingi spurði hvort þeir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur hefðu íhugað einhver sams konar tilmæli og hafa verið gefin út í Danmörku og Hollandi.

Víðir var fljótur að segja nei en Þórólfur gaf greinargóð svör.

„Ég held að menn eigi bara að halda sig við sína reglubundnu bólfélaga. Við erum það heppin að við höfum ekki þurft að loka fólk inni. Fólk hefur getað farið út og stundað sína leikfimi í guðsgrænni náttúrunni,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina