Var í 12 ár í ofbeldissamandi við konu

Það er alltaf erfitt að vinna úr áföllum sem einstaklingur …
Það er alltaf erfitt að vinna úr áföllum sem einstaklingur hefur orðið fyrir vegna ofbeldis í samböndum. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem veltir fyrir sér hvernig hann vinnur sig út úr ofbeldissambandi sem hann var í um árabil. Hann upplifir samfélagslegt taboo að tala um ofbeldið. 

Sæl.

Ég er karlmaður og var í sambandi við konu í ein 12 ár þar til ég áttaði mig á því hversu alvarleg áhrif það var að hafa á líf mitt. Við eignumst börn og ég í góðri vinnu með fína stöðu þ.e. skaffaði vel og hélt öllu gangandi. Ofbeldissamband er eitthvað sem er kastað svolítið fram í umræður í dag og oftar en ekki eru það karlar sem eru gerendur, í mínu tilfelli var það akkúrat öfugt. Þetta byrjaði nú bara með einum kinnhest þegar við vorum að byrja saman en stigmagnaðist bara sem fram liðu stundir þangað til að hlutir brotnuðu á hausnum á mér og hrækt var framan í mig. Alltaf var skýring á ofbeldinu og yfirleitt var það bara mér að kenna, eitthvað sem ég sagði eða gerði, nú, eða sagði ekki eða gerði ekki.

Núna eru tæp tvö ár síðan mér var hent út, í ég veit ekki hvaða skipti, en líka í síðasta skipti og mér finnst ég ennþá bera þess mikið merki um andlega niðurlægingu í gegnum þessi ár. Ég hef leitað mér aðstoðar hjá hinum og þessum sálfræðingum en finnst ég ekki fá neina haldbæra aðstoð til þess að vinna úr þessu. Ég hef lesið mig mikið til um sambærileg sambönd og líka hvað það gæti verið sem er að hrá hinn aðilann en kemst samt engan veginn nálægt því hvernig á að vinna markvisst úr þessu.

Ég upplifi það svolítið sterkt að þjóðfélagið er ekki í stakk búið til að takast á við þennan vanda þ.e. karla sem eru þolendur, það er ennþá pínu „taboo“ að segja frá þessu þó svo að ég tali mjög opinskátt um það.

Eftir því sem ég kemst nærst þá var hinn aðilinn mikill og mjög slunginn narsissisti og er víst ekki á allra færi að hjálpa eftir slík sambönd nema með mikla þekkingu á efninu.

Datt í hug að spyrja ráða og fá jafnvel ábendingar um það hvert best væri að leita eftir svona stormasöm ár.

Besta kveðja

Einn bugaður.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæll og takk fyrir að hafa samband. 

Ég held að bréfið þitt komi á góðum tíma og sé þarft og mikilvægt inn í umræðuna um ofbeldi í samböndum og hvernig best er að vinna úr því. 

Ég er sammála þér þegar kemur að úrvinnslu úr þessum málum. Fyrsta stigið að mínu mati er alltaf að finna sér góðan sérfræðing að vinna með sem getur staðfest með þér að þessir hlutir voru ekki í lagi. Þá er áhugavert að skoða kenningakerfi sálfræðinnar en reglurnar sem sálfræðingar fara eftir eru þær að ekki má greina aðila sem ekki hefur gengist undir klínískt próf á stofu hjá viðkomandi. Hægt er að benda á mynstur og tala almennt um hvað gæti verið í gangi. En réttur aðili fyrir þig mun færa sjálfsvinnuna til þín. 

Þegar kemur að góðri úrvinnslu úr áföllum með sálfræðing gæti ég bennt þér á EMDR stofuna og þá Gyðu Eyjólfsdóttur. Sérfræðingur í þessari vinnu ætti ekki að aðgreina fólk út frá kyni, stétt, húðlit, né stöðu að mínu mati. Þú gætir þurft að fara í nokkur skipti og er ég nokkuð viss um að það verði tekið vel á móti þér. 

Það á ekki að skipta nokkru máli hver beitir þig ofbeldi. Það er aldrei í lagi og auðvitað meiðir það þig líkt og annað fólk. 

Ef þú ert að burðast með ótta við nánd og að treysta konum aftur. Þá langar mig að benda þér á fleiri leiðir til að upplifa öryggið til að verða hamingjusamur, glaður og frjáls aftur. 

Skrifaðu niður manninn sem þig langar að vera og hvað þessi aðili gerir daglega. Farðu strax í dag að gera það sem þessi maður gerir og settu niður á blað einnig hvað þessi maður gerir ekki. 

Þannig leggur þú grunninn að því að verða góður í að setja mörk. Þú ert þá fyrst að setja sjálfum þér mörk og þannig verða mörk gagnvart öðru fólki þannig að þú þarft varla að tala um þau. Nema að sjálfsögðu í samskiptum þínum við þitt nánasta fólk. Það er nauðsynlegt að ná góðum tökum á því. 

Það væri mjög áhugavert fyrir þig að skoða fjölskyldusöguna þína. Samskipti foreldra þinna og þar fram eftir götunum. Þetta er uppbygging sem flestir er ná fullum bata af þínum stað þurfa að fara í til að sjá hvar þeir voru vanmáttugir að setja mörk í byrjun, hversvegna þeir tóku þátt í fíknihringnum öll þessi ár og þar fram eftir götunum. Ég er ekki að setja ábyrgðina á þig heldur aðstoða þig við að skoða leiðir til að koma þér út úr sambandinu þínu við fyrrverandi. Hætta að vera þolandi í því máli, enda er það búið og halda áfram og lenda ekki í þessu aftur. 

Ást er að mínu mati þannig að maður byrjar á að elska sjálfan sig án skilyrða. Í ákveðinni topphegðun, þá fær maður síðan sjálfsvirðingu til að stíga inn í fallegt líf þar sem maður hugsar vel um sig, borðar hollan og góðan mat. Æfir líkamsrækt, stundar leikfimi, klæðir sig fallega og fer í snyrtingu reglulega. 

Ef þú flýtur inn í að ástunda topphegðunina þína án allra vandræða þá myndi ég segja að þú færir á þannig stað að það tali ekki til þín einstaklingar sem haga sér líkt og þín fyrrverandi gerði. Þú byrjar að laða til þín heilbrigða einstaklinga og aðstæður þar sem þú munt fá tækifæri til að sýna ást þína og æfa þig í nánd. 

Ég er á því að einlæg nánd í samböndum sé svipuð vinna og að fara upp á Mount Everest. Að flestir séu í samböndum þar sem metingur, takkaýtingar og allskonar hlutir eru í gangi. En færri séu í samböndum þar sem traust, ást og virðing er til staðar. Ótti og vanmáttur er tjáður og einstaklingar standa með hvorum öðrum þó á brattann sæki. 

Þú sýnir ást í samböndum með þeim skuldbindingum sem þú ert tilbúinn að sýna viðkomandi. Gerðu góðan samning um sanngjörn samskipti í framtíðinni þar sem stendur: Ég fellst á að mörk séu sett. Ég fellst á að það verði ekkert líkamlegt ofbeldi. 

Ef þú nærð ekki að halda þér í topphegðun, og hugurinn leitar stöðugt til baka í gamla sambandið eða ofbeldið. Þá myndi ég prófa að fara með þau atvik til sálfræðings sem er góður í djúpri úrvinnslu áfalla. Setja niður fæturnar og magna upp tilfinningarnar. Setja nafn á tilfinningarnar og losa þig síðan við þær með góðum og gildum leiðum. 

Það er misjöfn skoðun fólks á hversu mikið er hægt að vinna sig andlega upp eftir áföll svipuð og þau sem þú lentir í. Mín persónulega skoðun er sú að þú getur náð þér að fullu, en þú gerir það ekki einn. 

Ég óska þér góðs gengis í þessu máli sem öðrum. 

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is