Hvernig er hægt að gera upp dánarbú konu sem lést 2002?

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hvernig dánarbú móður sé gert upp. 

Sælir

Þannig er að móðir mín lést 2002 og maður sem gerðist kjörfaðir hennar þegar hún var barn og ól hana upp sem sína eigin dóttur lést um þremur vikum á eftir henni. Hvernig er það með dánarbú hans, ætti það ekki að fara til barna hennar, þar sem hann átti engin önnur börn? Og ef svo er hvernig hefur verið hægt að gera upp dánarbúið ef aldrei hefur verið haft samband við börn hennar?

Kveðja, S

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl S. 

Frá þeirri stundu að ættleiðingarleyfi er gefið út stofnast erfðaréttur kjörbarns eftir kjörforeldri og gagnkvæmt, sbr. 1. mgr. 5. gr. erfðalaga. Í erfðalögum er mælt fyrir um að maki og börn arfleiðanda, þ. á m. kjörbörn tæmi allan arf þegar arfleiðandi andast, en um svonefnda skylduerfingja er að ræða.

Staðgöngureglan svokallaða gildir jafnframt í erfðarétti en hún birtist skýrlega í 2. mgr. 2. gr. erfðalaga. Þar er átt við að sé t.d. barn arfleiðanda (móðir þín) látið, þegar arfur fellur eftir arfleiðanda (kjörföður), er sá ættliður engu að síður virkur til lögerfða þannig að börn þess barns (barnabörn kjörföður) taka þann erfðahlut, sem frumerfingjanum (móður þinni) hefði borið í lifandi lífi.

Af fyrirspurn þinni má ráða að skiptum á dánarbúi kjörföður sé lokið. Við einkaskipti staðreynir sýslumaður almennt ekki efni yfirlýsinga erfingja um það hverjir telji til erfðaréttar í dánarbúi. Ákvæði laga um skipti á dánarbúum o.fl. byggja á þeirri meginreglu að skiptabeiðendur og eftir atvikum öðrum beri að veita sýslumanni upplýsingar um þýðingarmikil atriði sem varða skiptin, t.d. um þá sem gætu hugsanlega talið til erfðaréttar eftir þann látna. Séu upplýsingar rangar og/eða ófullnægjandi er hætta á að erfingjar verði hlunnfarnir við skiptin.

Í lögum um skipti á dánarbúum o.fl. er mælt svo að ef einhver gefur sig fram innan tíu ára frá lokum opinberra skipta sem hefði átt rétt til arfs eða gjafar úr búinu en gengið var fram hjá við skiptin getur hann krafið hvern þann sem naut arfs í hans stað um endurgreiðslu fyrir sitt leyti. Hið sama á við um einkaskipti á dánarbúi.

Með vísan til framangreinds er unnt að höfða einkamál eftir almennum reglum á hendur þeim sem fékk ranglega verðmæti í hendur við skiptin.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

 

mbl.is