Maðurinn vill skilnað en konan vill hjónabandráðgjöf - hvað er til ráða?

Kona sendir inn bréf sem hefur áhuga á að vinna …
Kona sendir inn bréf sem hefur áhuga á að vinna í hjónabandinu sínu. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem á mann sem hefur óskað eftir skilnaði. Hana langar að vinna í sambandinu en hann er að umgangast aðra konu. 

Sæl,

Maðurinn minn óskaði eftir skilnaði að borði og sæng og sótti um skilnað fyrir skömmu. Ég vona að hann skipti um skoðun og fallist a.m.k. á hjónabandsráðgjöf en hef einbeitt mér að því að vinna í sjálfri mér og mínum málum og gengið mjög vel og er mjög sátt í eigin skinni. Við búum enn saman en hann eyðir miklum tíma með yngri kvenmanni, jafnvel með börnunum. Ég er búin að biðja um að við klárum okkar mál (á einn eða annan veg) án þessa kvenmanns í lífi hans eða okkar en hann segir að það sé ekkert í gangi og að hann sé bara að leita í félagsskap og samverustundir. Er ég alveg út úr kortinu í heimtufrekju?

Kveðja, G

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl sjálf og takk fyrir góða spurningu. 

Þú notar orðið heimtufrek og spyrð mig um dómgreind tengt því. Ég er ekki viss um að málið snúist um frekju hjá þér heldur meira um raunveruleikatengingu - að berskjalda sig, ræða tilfinningar og setja heilbrigð mörk. 

Af öllu því sem þú getur verið að gera í dag, er þetta maðurinn sem þig langar að vera með? Er spurning mín til þín. 

Ef svarið er: Já, en... og síðan kemur setning sem fjallar um að þú viljir hann svo framarlega sem hann hættir að hitta aðrar konur, svo framarlega sem hann klæði sig öðruvísi, hagi sér öðruvísi og þar fram eftir götunum. Þá ráðlegg ég þér að skoða hvaðan þessi hugmynd um manninn komi. 

Mjög margar konur eru fastar í því sem heitir þráhyggja um samband. Þær eru með hugmyndir að ástinni og sjá ekki rauðu flöggin, eða það sem blasir við þeim og manninn sem stendur fyrir framan þær. 

Ég ráðlegg þér ekki að reyna að breyta manninnum sem þú ert með heldur spyrja þig: Af hverju langar mig í mann sem langar ekki í mig?

Ég myndi taka hlutunum af stóiskri ró ef þú getur og ekki reyna að stjórna manninum sem er að skilja við þig, heldur horfa á hvaða mann hann hefur raunverulega að geyma. 

Það sem ég myndi svo ráðleggja þér í framtíðinni er að finna ást til þín. Finna hver persónueinkenni þín eru, langanir og þrár. Finndu út hvað þér finnst gott að borða. Hvernig staðir næra þig. Spurðu þig hvort þú sért í frábærri vinnu sem þú kannt að meta. Finndu allan þann tíma sem þú getur til að vera með börnunum þínum. Gerðu góða hluti fyrir þig daglega. Síðan þegar þú verður tilbúin í samband næst. Taktu þér þá langan tíma í að fara á stefnumót með manninum sem þú ert að spá í að fara í samband með. Finndu út hvernig þið passið saman, bæði þegar kemur að þroska, greind, áhugamálum, menntun og fleira. 

Ef þú finnur félaga sem þú kannt að meta og er jafningi þinn. Prófaðu þá að ræða hluti sem skipta þig máli. Ef þið rífist, áður en þið farið í samband, skoðaðu þá hvort hann skjóti þig með orðum undir beltisstað, fari eða bara setjist niður og tali við þig. 

Ef þú finnur þér félaga, sem þú getur séð sem besta vin þinn, þá myndi ég hiklaust mæla með að þú farir í ástarsamband við þannig mann. 

Æfðu þig svo í að elska sjálfa þig daglega, börnin þín og svo alla aðra. 

Ég held það sé mjög mikilvægt að ræna ekki þroska frá öðru fólki. Af því sögðu finnst mér eðlilegt að þú setjir heilbrigð mörk í kringum umhverfið þitt í dag. Þú gætir talað við manninn þinn og sagt honum hvað meiðir þig í samskiptunum í dag. Mér finnst smávegis óskýrt hverjar langanir og þarfir þínar eru, með setningunum sem þú notar í spurningunni þinni hér að ofan. Hefurðu sagt honum að þú elskir hann og viljir ekki skilja við hann, en ef það er það sem hann vill þá að sjálfsögðu geti hann skilið? Hefurðu sagt beint út að þig langi að fara í hjónaráðgjöf með honum?

Ég held að þú getir elskað hann mjög mikið en sleppt honum. En ef þið ætlið að vinna í sambandinu máttu búast við að það taki smávegis tíma að rétta við hjónabandið. Nokkur ár ef því er að skipta. 

Í lokin langar mig að benda þér á tvenns konar skilnaði sem eru í boði fyrir fólk í dag. Annars vegar að skilja fyrir fullt og allt. Síðan er hægt að skilja tímabundið til að vinna í sér, til þess að taka saman aftur í nýju sambandi. Ég myndi alltaf ráðleggja fólki að semja vel um þann tíma sem það ákveður að fara í sundur til að vinna í sér. Fólk sem er ekki með stjórnleysi þegar kemur að ástarmálunum, getur auðveldlega tekið sér þrjá mánuði upp í ár - og verið eitt og unnið með sérfræðingum. Þeir sem verða að fara í önnur sambönd strax eru að mínu faglega mati að fixa sig á öðru fólki. Það er aldrei vænlegt til árangurs á þessu sviði og til lausn frá því eins og öllu öðru ef fólk hefur áhuga á að taka ábyrgð á sér og vera sterkt í lífinu. 

Gangi þér vel með verkefnið og mundu; þú átt allt hið besta skilið. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is