Langar í annað barn en maðurinn harðneitar

Hjón geta verið með misjafnar langanir og þarfir þegar kemur …
Hjón geta verið með misjafnar langanir og þarfir þegar kemur að fjölda barna og stærð fjölskyldunnar. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem langar í annað barn með eiginmanni sínum. Hann er vanmáttugur að ræða það mál við hana. 

Sælar. 

Við hjónin eigum lítinn strák og mig langar í annað en hann ekki.

Það sem særir mig er að hann vill ekki ræða þetta eða leyfa mér að útskýra af hverju mig langar í annað. Það er hart nei, spurði hvort við gætum leitað til ráðgjafa og það var sagt nei við því líka ... vill ekki tala um vandamálin við ókunnuga. Meðgangan gekk ótrúlega vel að fyrra barni en ég átti mjög erfiða fæðingu. Þetta barn er yndislegt í alla staði og að sjá þá tvo saman að bardúsa er það sem gerir tilveruna mína svo ég skil þetta ekki. Hversu langt get ég gengið og heimtað ráðgjöf?

Kveðja, KH

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sælar. 

Takk fyrir bréfið. 

Ég er á þeirri skoðun að fólk ætti að ræða búsetu, hversu mörg börn það vill eiga og fleira áður en það ákveður að fara í samband, eða hjónaband.

Kannski snýst spurning þín ekki einvörðungu um atriðið er varðar barnið, heldur hvernig þið ætlið að leysa málin ykkar á milli þegar eitthvað kemur upp á í hjónabandinu í framtíðinni. 

Hjónabönd eru líkt og lífið sjálft þannig að alls konar hlutir gerast sem þarf að ræða og fá niðurstöðu í sem báðir aðilar eru sáttir með. Sumir segja hjónabandið eins og göngu upp á Mont Everest; það geti verið erfitt, fallegt, skemmtilegt og í raun alls konar og því sé eins gott að maður sé með góðan félaga sér við hlið sem grípur mann þegar maður hrasar og öfugt.

Mér heyrist maðurinn þinn vera mikill leiðtogi í eðli sínu og jafnvel eiga erfitt með að berskjalda sig.

Þú segir að maðurinn þinn vilji ekki ræða vandamálin við ókunnuga. Hvað með þig? Vill hann ræða málin við þig?

Það geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að hann vill ekki fleiri börn og erfitt að vera með ágiskun því tengt.

Ef hann er ekki fús til að ræða málin við þig, þá er það eina sem þú getur raunverulega gert að spyrja þig af hverju þú ert með þannig manni í hjónabandi.

Ef þú lærir að standa með sjálfri þér og setja heilbrigð mörk muntu geta gert það án þess að finnast þú vera að ganga of langt í málinu. Það þarf tvo til að mynda samband og það þurfa báðir aðilar að leggja 50% hlut í það. Eins geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að eiginmaður þinn vill ekki utanaðkomandi aðstoð.

Að mínu mati ættu læknar, sálfræðingar, ráðgjafar, prestar og geðlæknar að vera góð viðbót við lífið ef fólk þarf á sérfræðngi að halda. Sú hugsun tíðkast ekki þegar fólk brýtur á sér fótinn að það hiki við að fara niður á spítala að hitta einhvern „ókunnugan“ bæklunarskurðlækni sem muni setja fótinn aftur saman. Það sama á að gilda um samskipti. Gagnreyndar aðferðir eru í boði fyrir fólk sem er komið með brot í samskiptin. Sérfræðingar á því sviði dæma ekki skjólstæðinga sína frekar en annað fagfólk. Nema síður sé. 

Með tímanum geta sérfræðingar orðið góður stuðningur fyrir fjölskylduna ykkar. Það er hins vegar alveg eðlilegt að fólk þurfi að prófa sig áfram þegar kemur að fagfólki og að það þurfi að gefa slíkum samböndum tíma.  

Gangi þér vel með verkefnið. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál