Erfi ég móðursystur mína ef mamma er látin?

Ljósmynd/ Xavier Mouton Photographie/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem spyr hvort hún sé erfingi móðursystur sinnar. 

Sæll

Móðir mín er látin fyrir 7 árum síðan. Hún átti eina alsystir og þrjú systkini samfeðra. Í vetur dó hálfsystir mömmu. Hún átti engin börn og var ekki gift eða í sambúð og foreldrar hennar bæði látin.

Nú langar mig að vita hvort ég er erfingi móðursystur minnar, fellur hlutur móður minnar niður af því að hún er látin eða færist hann yfir á mig?

Ég veit að það er búið að ganga frá dánarbúinu og það var aldrei haft samband við mig né alsystur mömmu varðandi undirskrift á erfðafjárskýrslu.

Kveðja,

Erfinginn

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl,

Erfingjar eftir annarri erfð samkvæmt erfðalögum eru foreldrar arfleiðanda (hins látna) og síðan börn þeirra (þ.e. foreldranna) hvort heldur alsystkini arfleiðanda eða hálfsystkini. Séu báðir foreldrar arfleiðanda látnir, svo sem ráða má af fyrirspurn þinni, rennur arfur einvörðungu til barna hvors foreldris, þ.e. systkina arfleiðanda sem tæma arf. Hvort arfshluti móður þinnar hefði átt að falla til þín þá er stutta svarið við því nei þar sem systkini hennar tóku þann arf, sem móðir þinni hefði borið í lifandi lífi eftir hálfsystur sína.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, lrl, MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR

mbl.is