Kveiktu í kynlífinu eftir barneignir

Þórey Kristín sálfræðingur segir frá pari sem kveikti í kynlífinu …
Þórey Kristín sálfræðingur segir frá pari sem kveikti í kynlífinu eftir barneignir með Female Led Relationship aðferðinni. Ljósmynd/Thinkstockphotos

„Í vinnu minni kemur ósjaldan upp ákveðið þema í samtalsmeðferð. Eitt þemað, er kynlíf. Að sjálfsögðu! Enda þegar það er í lagi er nær ekkert að tala um en þegar það er í ólagi eða of lítið af því, að mati annars hvors aðilans (oft mannsins), fer gjarnan mikill tími og orka í samtöl og/eða rifrildi og um kynlífið getur myndast mikil togstreita í parasamböndum,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi.

Það kannast sjálfsagt allir foreldrar við þetta tímabil eftir barneignir, þar sem samskipti parsins snúast að mestu leyti um nýburann, hvenær barnið drakk, fékk nýja bleyju, hvenær pelinn var soðinn síðast og svo framvegis. Að sjálfsögðu er auðvelt að gleyma sér í þessum nýburapakka og sjálfum sér einnig. Daglega sturtan hér áður fyrr er allt í einu orðin lúxusafurð í fæðingarorlofinu, slitnar leggingsbuxur og flíspeysa orðin að algjörum staðalbúnaði …og fyrirbærið kynlíf gengið veg allrar veraldar.

Tæplega þarf að taka fram að líkamlegt og andlegt álag ríkir í meira mæli á konunni, sem hefur gengið með barnið, fætt það og reynir að jafna sig eftir meðgöngu og fæðingu. Við tekur jú fæðingarorlofið og oft kemur það í hlut hennar að vera lengur heima með litla barninu. Það er heilmikið álag og vinna að vera með nýbura heima og svara þörfum hans. Ofan á það leggst svo almennt heimilishald; uppvask, þvottur, þrif og tiltektir og jafnvel umönnunn eldri barna á heimilinu. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að parasambandið líður oft heilmikið á slíkum álagstímum og konan, sem kannski hefur ekki náð að greiða sér yfir daginn eða drekka kaffibolla, næsta víst í allt öðrum hugleiðingum en makinn þegar inn í svefnherbergið er komið í enda dags.

Ég vann með skemmtilegu pari í fyrra, sem leyfði mér að segja sögu sína. Þau höfðu eignast tvö börn með skömmu millibili, sem voru mikil viðbrigði fyrir parið, sem hafði fram að því aðeins um sjálf sig að hugsa. Konan lýsti því þannig að þegar börnin voru loks sofnuð á kvöldin eftir að hafa hangið meira og minna í henni frá því snemma um morguninn, hefði eiginmaðurinn tekið við! Hún hafði ósjaldan orð á því í parameðferðinni að hann væri eins og þriðja barnið; fálmandi öllum stundum eftir athygli í lok dags, sem hún átti enga innistæðu fyrir að veita. Með tímanum var samlíf og flest sem því tengdist orðið að algjörri kvöl og pínu frá hennar sjónarhóli og maðurinn niðurlútur yfir allri höfnunni sem hann upplifði vegna þess.

Í bíltúr dag einn þegar parið var á leið í gróðrarstöð að versla sumarblómin, hvíslaði eiginmaðurinn að henni: “Heyrðu, það er eitt sem mig langar að ræða við þig. Viltu lofa mér að hlusta með opnum huga?”. Hún sagði mér að sér hefði orðið bylt við og eiginlega ekki vitað hverju hún ætti von á. Hann hélt áfram og stakk upp á því að þau myndu skipta um takt í sambandinu. Að hann væri búinn að lesa sér mikið til um sambúðarform sem kallaðist Female Led Relationship eða FLR. Jú, hvað er nú það spurði hún sjálfa sig?!

Í sem stystu máli þýðir það, í sambandi karls og konu, að konan stýrir sambandinu eða fjölskyldunni. Það er hennar að taka frumkvæði og það er hún sem “ræður” á heimilinu. Nú bregður eflaust einhverjum við og hugsar að þetta sé eitthvert bdsm tilbrigði þar sem konan gengur um í leðurkorselett með gaddasvipu, á meðan maðurinn skríður um á gólfinu í silki g-streng þrífandi húsið með tannburstanum sínum. Því fer fjarri -útgangspunkturinn er einfaldlega sá að konan hefur forystuna og er ráðandi í hinu félagslega sambandi parsins, á meðan maðurinn lætur sér ákvarðanir hennar sér að góðu

Í sögulegu samhengi í mannlegum samfélögum hefur það gjarnan verið karlmaðurinn, sem hefur verið höfuð fjölskyldunnar og borið á því ábyrgð á að sjá henni farborða, verið sá sem tekur helstu ákvarðanir og haft ákveðna ,,yfirhönd" í hjónabandinu. Undanfarin ár og áratugi hefur þó þessi mynd breyst umtalsvert og í dag búa margir við meira jafnræði í fjölskyldulífinu en áður tíðkaðist.

En snúum okkur aftur að fyrrnefndu pari. Eftir að eiginmaðurinn hafði kastað fram þessari hugmynd og eiginkonan kynnt sér hvað fælist í Female Led Relationship urðu miklar breytingar í samskiptum þeirra. Konan var núna komin við stjórnvölinn og saman höfðu þau hjónin gert með sér samning. Í tilfelli þeirra hjóna gerðu þau meðal annars samning um að hann héldi áfram að stýra daglegum fjármálum og stærri ákvarðanir urðu áfram sameiginlegar. Hún stýrði aftur á móti heimafyrir, þar með talið skiptingu heimilisverka. Ólíkt því sem áður var settist eiginkonan nú niður eftir barnavaktina á meðan eiginmaðurinn batt fyrir alla lausa enda í heimilisstörfunum.

Ein af stóru ákvörðunum sem þau tóku var að hann afsalaði sér stjórn á sínum fullnægingum og hún tók alfarið yfir frumkvæði í kynlífinu. Nú var það hún sem sagði til um bæði hvenær og hvernig kynlíf þau stunduðu. Í parameðferðinni sögðu þau mér bæði að þetta hefði breytt gríðarlega miklu fyrir þau. Í stað þess að hann væri biðjandi um kynlíf og færi svekktur að sofa eftir að hafa fengið enn eina höfunina af hennar hálfu, var staðan skyndilega sú að nú var hún komin með valdið. Til að nýta sér það sem best kynnti hún sér grundvallarbókmenntir um FLR í daglegu lífi og samlífi, sótti sér þekkingu og hugmyndir sem hún aðlagaði að eigin smekk.

Að hennar sögn var það það mikilvægasta (og skemmtilegasta!) sem hún hefur kynnt sér hingað til, er það sem á ensku kallast Tease and Denial eða Stríðni og Afneitun. Í því felst að konan getur hvenær sem henni þóknast örvað manninn á hvern þann hátt sem henni sýnist, hvort sem er með orðum, skilaboðum, snertingum eða öðru. Þar sem henni, eins og áður sagði, hafði verið gefin eftir stjórn á fullnægingum mannsins með samningi þeirra á milli, gat maðurinn ekki sett sitt upp á móti því að geta ekki ,,lokið sér af". Með öðrum orðum að í hvert sinn sem þau til dæmis leggjast til hvílu, getur hún leikið sér að honum og er það allt undir því komið hvernig hann hefur staðið sig yfir daginn hvort hann fái lausn eða ekki.

Reyndar sagði hún mér að þrátt fyrir að hann hefði oft á tíðum staðið sig afskaplega vel að þá hvíldi engin skylda á herðum hennar til að veita honum fullnægingu. Honum gæti aftur móti verið ýtt ,,að brúninni" (e. edging), þegar hún tæki þá ákvörðun að bjóða honum góða nótt. Þá kann einhver að hugsa með sér hvort ekki væri þá nærtækast fyrir manninn að taka sér göngutúr inn á baðherbergi og ljúka því sem þegar var hafið, með sjálfum sér. Parið sem um ræðir vill meina að svo sé ekki og maðurinn mundi aldrei voga sér það enda snýst trúnaðurinn, í þessari lífstílsbreytingu þeirra að þessu leyti í samningnum sem upphaflega var gerður.

En hverjum hentar svona fyrirkomulag? Við því er ekkert einhlítt svar. FLR getur hentað mörgum, og getur ef rétt er farið að skapað nýtt jafnvægi á heimilinu. Þegar ég spurði þau hjónin hvort ég mætti skrifa grein um samtöl mín við þau báðu þau mig að koma eftirfarandi á framfæri: “Einhver kann að segja en hvað með börnin, er enginn að hugsa um þau!? Og margir sjá eitthvað ægilega pervertískt fyrir sér í þessum efnum. Svo er einfaldlega ekki. Það sem börnin okkar sjá er einfaldlega sterkt heimili þar sem bæði mamma og pabbi bera ábyrgð, mamma og pabbi taka bæði þátt og ef vel er hugað að samkomulaginu milli þeirra, eins og við gerum, sjá börnin mömmu og pabba, sem af einlægni elska hvort annað í jafnvægi sem þau hafa skapað sjálf, en ekki samfélagið og sýnilegar og ósýnilegar kröfur þess.”

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent fyr­ir­spurn HÉR

mbl.is