Fengu 5.000 króna sekt fyrir að taka ekki til í garðinum

mbl.is

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem veltir fyrir sér réttindum sínum eftir að formaður húsfélagsins sektaði þau fyrir að taka ekki til í garðinum. 

Góðan dag.

Ég og unnusti minn búum saman í lítilli blokkaríbúð í Kópavogi sem við kaupum í júní 2018. Við ásamt einstæðum föður í næstu íbúð erum að verða fyrir aðkasti frá nágrönnum okkar sem eru formenn húsfélagsins.

Um leið og við fáum íbúðina afhenta í ágúst 2018 byrjar vesenið næstum samdægurs. Það fyrsta sem við gerum í íbúðinni er að rífa allt út til að skipta fyrir nýtt og þá kemur fyrsta kvörtunin um of mikil læti í uppgerðinni.

Eftir þetta hafa kvartanir hrannast inn yfir minnstu tilefnum og ætla ég að telja upp nokkur atvik. Kvartanirnar eru af ýmsum toga til dæmis of mikil umgangur, of mikill gestagangur, læti í þvottavél (sem er ný), hávaði í sjónvarpi, tónlist, matarbræla og svo eru það hlutirnir í sameign eins og til dæmis hjólageymslan eftir að við byrjuðum að geyma hjólin okkar þar er búið að læsa geymslunni og gera hana að 40 fm geymslu húsfélagsins til að geyma kassa af ljósaperum og eina garðsláttuvél sem við íbúar fáum ekki einu sinni aðgang að nema formaður.

Formennirnir voru dugleg að banka upp á hjá okkur til að kvarta en eftir að við gáfumst upp á þeim og hættum að svara þeim eru prentaðir miðar og límdir á tilkynningatöflu í anddyrinu.

Þau eru með 6 íbúðir (af 11) sem eldra fólk býr í og þau eru með þau í vasanum. Þau safna undirskriftum bara þessara íbúa hvenær sem er til þess að breyta hlutum án þess að fara með það fyrir húsfund.

Í maí í fyrra var ákveðið að fara í hreingerningar á lóð þar sem íbúar áttu allir að taka þátt annars væri íbúð sektuð fyrir að taka ekki þátt og við tókum það mjög skýrt fram á húsfundinum að við gætum ekki verið með síðustu 2 vikurnar í júní því við værum ekki á landinu, þetta var meira segja skrifað á blað fundarstjóra svo bara allt í einu búið að hengja miða í anddyrið að tiltekt færi fram akkúrat á meðan við værum úti og var það samþykkt af þessum 6 íbúðum og þeirra á undirskriftalista án þess að talað væri við okkur og við fáum 5.000 kr. sektina sem við ætlum ekki að greiða.

Við og nágranni okkar getum talið upp endalaust af svona hlutum um þau.

Þannig að spurningin er:

Hvað getum við gert með svona formenn og nágranna, mega þau loka sameignum sem stendur skýrum stöfum að sé hjólageymsla í sameign og þessir undirskriftalistar sem ekki allir íbúar fá að skrifa undir, eru þeir löglegir?

Kveðja, J

 

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl,

Lífi í fjölbýli fylgja óneitanlega endrum og eins óþægindi og vissar truflanir sem menn þurfa að þola. Hið nána samneyti fjöleignarhúsalífsins veldur því að menn verða reglulega varir við granna sína og fjölskyldubrambolt þeirra sem gerir það að verkum að nágrannadeilur og krytur eru því miður algengari en góðu hófi gegnir. Á þessum grundvelli er svo kveðið í lögum um fjöleignarhús að meginskyldur eigenda eru m.a. að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra eigenda við hagnýtingu séreignar og sameignar. Í atvikalýsingu þinni virðist víða vera pottur brotinn er lýtur að þessari grundvallarreglu um tillitsskyldu eigenda sem ásamt öðrum ákvæðum laganna er ætlað að skapa frið á meðal manna.

Vísað er til þess að listi sé látinn ganga á milli eigenda og með þeim hætti eru ákvarðanir teknar um hitt og þetta. Æðsta vald í málefnum húsfélagsins er í höndum almenns fundar þess, húsfundar og eiga allir hlutaðeigandi eigendur óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerta hana beint og óbeint. Fyrirkomulag ákvörðunartöku innan fjölbýlisins samræmist þar af leiðandi ekki ákvæðum laga og er eigandi sem ekki hefur verið boðaður á húsfund með lögmætum hætti þar sem ákvörðun er tekin um sameiginleg málefni ekki bundinn af slíkri ákvörðun.

Einstökum eigendum verður ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki. Eiganda er á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar. Sé ætlunin að breyta hagnýtingu sameignar, líkt og hjólageymslunni, er nauðsynlegt að allir eigendur ljái slíkri ákvörðun samþykki enda mætti almennt telja að um verulega breytingu í skilningi laganna sé að ræða.

Ef eigendur fjöleignarhúsa standa í deilum og ná ekki að sætta sín mál geta þeir leitað til kærunefndar húsamála og óskað eftir álitsgerð um ágreiningsefnið.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda