Fyrri eigandi millifærði peninga á eigin reikning: Hvað er til ráða?

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem telur að fyrri eigandi hafi stolið peningum frá húsfélaginu. 

Sæll Sævar. 

Ég var að flytja í lítið fjölbýli og kom inn í stjórn húsfélagsins í stað fyrri eiganda. Við yfirferð á bankareikningi kom í ljós að fyrri eigandi hafði millifært á eigin reikning úr framkvæmdasjóði og aðspurður sagði hann að þetta væri bara lán sem hann ætlaði að borga til baka. Núna er liðið tæpt hálft ár og hann hefur ekki endurgreitt neitt þrátt fyrir að lofa öllu fögru. Hvaða úrræði höfum við til að ná þessum fjármunum til baka?

Kveðja, Jón 

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Kæri Jón. 

Hér er um algenga birtingarmynd fjárdráttar að ræða. Fjárdráttur er ein þeirra brotategunda er nefnast auðgunarbrot og fjallað er um í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.

Fræðilega má skilgreina fjárdrátt sem einhliða og ólögmæta tileinkun sérgreindra fjárverðmæta eða peninga, sem eru eign annars manns (lögaðila) að nokkru leyti eða öllu, en í vörslum hins brotlega sjálfs að einhverju leyti, enda sé tileinkun verðmætanna af ásetningi og í auðgunarskyni gerð. Helstu séreinkenni fjárdráttar samkvæmt þessu eru þau að hann felst í ólögmætri tileinkun á fjárverðmætum annarra sem hinn brotlegi hefur sjálfur í vörslum sínum.

Vakni grunur um refsiverða háttsemi svo sem ráða má af fyrirspurn þinni getur umrætt húsfélag leitað til lögreglu og lagt fram kæru á hendur viðkomandi. Lögreglu ber meðal annars skylda að leiðbeina brotaþola um rétt hans til að gera bótakröfu í sakamáli sem yrði höfð uppi í ákæruskjali ef ákært er í málinu. Jafnframt væri unnt að höfða almennt einkamál gegn hinum brotlega í því skyni að ná umræddum fjármunum til baka.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál