Þarf lamað barnabarn að borga skatt af gjafafé?

Ljósmynd/Tiago Murano

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá ömmu stúlku sem lamaðist í bílslysi á síðasta ári og veltir fyrir sér skattlagningu af söfnunarfé. 

Sæll Sævar.

Barnabarnið mitt lenti í miklu bílslysi á síðasta ári og er lömuð. Settur var í gang söfnunarreikningur fyrir hana en margir vinir hennar og annað gott fólk sendi henni stuðning.

Ég hef stutt hana og lagt það inn á hennar einkareikning. Nú er spurningin: er mögulegt að hún verði skattlögð fyrir þennan styrk því um er að ræða nokkra upphæð á hennar einkareikning? Ef svo er, hvað er til ráða?

Kveðja, 

amma

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl amma. 

Samkvæmt skýlausu ákvæði 7. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003 eru hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður skattskyldur sem tekjur. Engu máli skiptir hvaðan þær koma eða í hvaða formi þær eru. Í 7. gr. A tekjuskattslaga eru einnig talin upp beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir, og fyrirframgreiðlur upp í arf. Af þessu er ljóst að allar peningagjafir, sem ekki eru tækifærisgjafir og verðmæti þeirra umfram það sem almennt þykir í þeim efnum, eru skattskyldar sem tekjur.

Frá framangreindu eru þó nokkrar undantekningar, þ.á m. er varða söfnunarfé og styrki vegna veikinda eða slysa. Það er þó háð því skilyrði að fjármunirnir gangi beint til þeirra sem safnað er fyrir. Af fyrirspurn þinni að dæma virðist sem það skilyrði hafi verið uppfyllt. Í ljósi þess sem fram kemur í fyrirspurn þinni um fjárstuðning þinn til viðkomandi er rétt að benda á að ofangreind regla er undantekningarregla sem er skýrð þröngt. Í því felst að reglulegir fjárstyrkir kunna að vera metnir til skattskyldra tekna enda sé umfang þeirra umfram það sem talist getur eðlilegt með tilgang undantekningarinnar í huga.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is