Eiginmaðurinn til 30 ára talar við aðra á messenger

Það skiptir öllu máli að geta sest niður með maka …
Það skiptir öllu máli að geta sest niður með maka og treyst honum fyrir tilfinningum sínum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem var að komast að því að maðurinn hennar hefur verið að tala við aðra konu á samfélagsmiðlum. 

Góðan dag

Komst að því fyrir tilviljun að maðurinn minn er búinn að vera í sambandi við konu á messenger á facebook í einhvern tíma. Hann kom upp um sig sjálfur bara við eldhúsborðið þegar ég óvænt sá þetta.

Ég hef aldrei verið að hnýsast í hans skrif en á öllu öðru átti ég von í lífinu. Hann segir að þau séu að tala um ættfræði og blóm, en ég mátti ekki sjá það. Hann segist ekki vera sekur um neitt því hann hefur hvorki sofið hjá henni né hitt hana og það er örugglega satt. Mér sárnaði bara tilhugsunin um að hann væri í tíma og ótíma að spjalla við einhleypa konu úti í bæ.

Orð eru til alls fyrst; hann segir að ég eigi að treysta sem ég hef svo sannarlega gert og segir að ég sé móðursjúk kona alin upp í bómull. Hann sýndi mér svo síðustu skilaboðin til hennar þar sem hann verður að enda þetta spjall þeirra en á samt þá einlægu ósk að vinátta þeirra sé einhvers virði og þau geti haldið áfram síðar og hennar svar var að hún væri til í spjall síðar í fullri vináttu.

Tek fram að maðurinn minn er mjög hæfileikaríkur og frábær penni en ekki frændrækinn og ég hef alltaf verið mjög glöð að eiga hann að. En er það alveg eðlilegt að hann sé að spjalla eitthvað við einhleypa konu um eitthvað sem enginn má sjá eða er ég bara móðursjúkur bómullarhnoðri? Þetta hefur tekið á hjá okkur en við höfum verið saman í 31 ár. Hann er búinn að vera fjarrænn og segir að það sé af því að ég taki þessu svo illa sem ekkert er. Hvað er einhleyp kona að spjalla við giftan mann? Veit að hún má gera hvað sem er því hún er ekki að fara á bak við neinn. En mér sárnaði þetta svo gífurlega, sem hann skilur ekki. Þau eru enn þá vinir á facebook. Vona að ég hafi getað komið þessu skýrt frá mér. Ég hefði getað skrifað meira en læt þetta gott heita. Langar að vita þitt álit.

Með kærri kveðju, 

B

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

Sælar og takk fyrir mjög góða spurningu. 

Mér finnst ekki eðlilegt að maðurinn þinn sé að tala við aðra konu sem þú veist ekki af. Eins finnst mér viðbrögð hans ekki eðlileg þegar þú spyrð hann út í þetta. 

Það þarf tvo til að eiga í sambandi og stundum er upplifun fólks mjög ólík á atburðum í lífinu.

Þegar fólk er statt á þeim stað sem þú ert á núna mæli ég með því að það endurhugsi aðeins mörkin sín. Fari jafnvel í ráðgjöf með maka þar sem báðir aðilar æfa sig í að berskjalda sig og tala um langanir sínar og þrár, hvernig þá langar að æfa sig í að tala saman og vera saman og ákveði síðan hvernig sambandi þá langi til að vera í.

Fólk skilgreinir framhjáhald á alls konar hátt. Viðbrögð við óheiðarleika eru vanalega uppákomur sem eru þannig að sá sem er að gera eitthvað sem ekki þolir dagsljósið fer í vörn og ræðst á hinn sem er að benda honum á óréttlætið. 

Ef þið setjist niður og ræðið hvert ykkur langar að taka samband ykkar, setjið inn heilbrigðar reglur sem gilda um ykkur bæði og æfið ykkur í að tengjast og elska hvort annað gætuð þið upplifað alveg nýtt samband sem getur vaxið og þroskast inn í framtíðina. 

Konur verða vanalega ekki móðursjúkar við að vera aldar upp í bómull. En ef þú ert ein af þeim sem upplifðu ekki stór áföll í æsku þá er það mjög fallegt og vil ég samgleðjast þér með það. 

Það sem maðurinn þinn kallar móðursýki er það sem ég kalla heilbrigð viðbrögð við óþægilegum atburðum. Ef þið hafið ekki rætt um að það sé í lagi að þið eigið vini af gagnstæðu kyni sem þið ræðið við um málefni sem þið hafið áhuga á er alveg eðlilegt að þið bregðist við á þann hátt sem þú ert að bregðast við. 

Nú veit ég ekki hvað hefur farið þeim á milli eða hvað er í gangi á milli mannsins þíns og þessarar konu. En ég er nokkuð viss um að þú veist það ef þú setur niður fæturna og hættir að hugsa um hvað er rökrétt að finnast í stöðunni. 

Ef þetta fer yfir mörkin þín þá er það eina sem þú getur sagt eða gert að setja heilbrigð mörk um svona hegðun. 

Ef maðurinn þinn hins vegar þráir að eiga í nánum samskiptum við fleiri/aðrar konur, þá væri það líka áhugavert fyrir þig að vita. Hvað myndi hann vilja gera ef hann gæti gert allt sem hann vildi?

Stundum getur verið gott að sleppa tökunum á þeim sem maður elskar. Svona ef mann langar að kynnast því hvaða mann/konu þau hafa raunverulega að geyma. 

Það er nefnilega aldrei hægt að stjórna öðru fólki. Að halda í fólk sem langar að vera að gera eitthvað annað er vondur staður að festast á. 

Að sjálfsögðu hefur þú það hugfast að það er stigsmunur á milli þess að tala við fólk, vera í draumaveröld með öðru fólki en maka sínum, snerta annað fólk eða langa í samband með öðru fólki en makanum. 

Svo er bara gott að muna að til að upplifa ást í nánum samböndum þarf traust að vera fyrir hendi. Traust er eins konar brú þar sem ást, virðing og vinsemd á að flæða á báða bóga. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál