„Samskiptin ekki að virka þó ég hugsi um hana eins og drottningu“

Það getur verið flókið að berskjalda sig og opna á …
Það getur verið flókið að berskjalda sig og opna á að mann langi í samband. En það er heilbrigt og eðlilegt að taka sambönd á næsta stig innan þriggja mánaða eða svo. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem er að missa alla trú á því að hann geti orðið hamingjusamur með konu. 

Hæ hæ.

Mig langar til þess að segja þér frá minni reynslu og jafnvel fá einhver svör við ef það er hægt.

Ég er sem sagt 22 ára strákur sem er búinn að reyna allar leiðir til þess að byggja upp samband. Kynnast bæði hratt og líka búinn að reyna að gefa okkur tíma, svo núna er ég að prufa að fara rosalega hægt í sambandið því ég hef brennt mig áður á öllu öðru fyrir utan að fara hægt í hlutina. Það endar einhvern veginn alltaf í vaskinum og þá er tekin góð pása frá öllum þessum tilfinningarússíbana. Ég er orðinn ráðalaus og er hreinlega bara búinn að missa alla trú um að ég gæti einhvern tímann orðið hamingjusamur með einhverjum.

Eins og þessi stelpa sem ég er að tala við núna, hún er að fylla upp alla mælikvarða (á góðan hátt). Ég hef aldrei kynnst eins frábærri manneskju og henni og ég bara vissi ekki að svona manneskja væri til. Ég á enn þá mjög erfitt með að trúa því að hafa kynnst svona fullkominni manneskju fyrir mig. Ég er bara búinn að vera með stjörnur í augunum að sögn nágranna míns.

Enn það eru að verða komnir tæpir 2 mánuðir og samskiptin eru oftast í gegnum Snapchat og verða þurrari með tímanum. Á fyrstu vikunum þá var maður bundinn símanum að missa sig í samræðum en mér finnst spennan og hamingjan sem var í símasamskiptunum vera að fjara út. Það er einhvern veginn allt öðruvísi þegar við hittumst. Þá er allt svo mikið öðruvísi, erum meira opin fyrir hvort öðru og það minnir mig mikið á þegar við vorum að kynnast fyrst.

Við erum þannig séð búin að opna allar dyr fyrir hvort öðru en það er eins og tilfinningadyrnar séu harðlæstar. Þannig að við erum ekkert búin að tjá okkur hvað okkur finnst um hvort annað í raun og veru. Þannig að ég er búinn að vera á þessu svo kallaða „óvissustigi” í nokkuð langan tíma miðað við hvað það er lítið búið að gerast á milli okkar. Þannig að ég er ekki að ná reglulegum svefni og svo hjálpa ofhugsanirnar lítið ofan á það.

En þetta er manneskja sem ég get séð alla framtíðina mína fyrir mér með og mér sárnar mjög að þetta sé að fara í vaskinn eins og öll hin sem urðu síðan aldrei að neinu því ég  er einfaldlega bara notaður og skilinn svo eftir og fékk aldrei að vita af hverju.

Þess vegna er ég líka að prufa að fara hægt í hlutina núna því ég þekki þessa særingu og er að reyna allar mínar leiðir til þess að komast hjá því að lenda í þessu aftur, enn mér finnst núna að ég sé að fara í þessa ferð enn eina ferðina. Og ég vil það bara alls ekki.

Ég veit ekki hvað það er en þegar kemur að því að ég hitti stelpu og þá aðallega þessa sem ég er að tala við núna þá set ég sjálfan mig í annað sæti og lyfti henni í fyrsta sæti og þar af leiðandi hugsa ég um hana eins og drottningu. Ég kem henni á óvart, plana allar ferðirnar okkar og fer með hana reglulega út að borða, gef henni gjafir og blómvönd og svo mikið meira, ég er þannig séð að kasta mér fram af fyrir hana. Ég er ekki að leitast eftir því endilega akkúrat að hún geri það sama til baka, en vil bara sjá hana vera hamingjusama og að hún átti sig á því að ég er til staðar fyrir hana og myndi gera allt fyrir hana. Það er bara eins og hún sjái það ekki. Mér sárnar það virkilega mikið.

Svo mig langar til þess að spyrja þig hvort ég sé bara eitthvert gallað eintak af manni og hvort öll von um hamingju sé á ekki bara á enda.

Kveðja, T

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

Sæll og takk fyrir mjög áhugavert bréf. 

Það eru nokkrir hlutir sem mig langar að segja þér sem eru staðreyndir og þú gætir haft gott af því að muna þegar þú heldur áfram að æfa þig í samskiptum við konur. 

Þú

Í fyrsta lagi þarftu að muna að þú ert einstakur. Það er enginn annar eins og þú og þú þarft að gefa þér leyfi til að vera það daglega. Þetta leyfi sem við gefum okkur til að vera einstök, byggir á því að við munum að við erum fædd hvert með sínu lagi og í öllum trúarkerfum þá finnst einhver texti um þetta. 

Þú ert ekki strákur lengur heldur ertu karlmaður og þú þarft að líta á þig sem slíkan. Hvaða karlmenn eru fyrirmyndir í þínu lífi? Hvað gera þeir daglega fyrir sjálfan sig? Ég held það sé hollt fyrir alla sem eru átján ára og eldri að hugsa á þennan hátt. Til að læra að taka ábyrgð á sér, einn dag í einu og fari þannig betur inn í fullorðinsárin sín. 

Ástin

Til að geta elskað annað fólk með heilbrigðum mörkum, þá þurfa allir að læra að elska sjálfan sig án skilyrða. Það er enginn fullkominn í þessum heimi, en allir eiga þennan rétt að elska sig fyrst og síðan annað fólk. 

Ef þú æfir þig í að elska þig á þennan hátt. Ferð vel með þig. Stundar vinnu. Leggur áherslu á að sofa vel (átta tíma á nóttu). Borðar hollt. Stundar líkamsrækt og ræktar vini og ættingja eða þá sem skipta þig máli. Þá muntu finna þér nýjan stað í veröldinni. Stað sem þig hefði ekki dreymt um að væri til og hefur lítið með annað fólk að gera. 

Að setja heilbrigð mörk

Að mínu mati þá er það skylda okkar að setja okkur í fyrsta sæti og síðan annað fólk. Það er enginn ofar þér eða fyrir neðan þig. Þú þarft að bera ábyrgð á þér og síðan að mæta fólki á staðnum sem þú ert á. 

Ef þú setur konur á stall, þá gæti það komið í veg fyrir að þú upplifir raunverulega heilbrigða nánd með þeim. 

Hvað gerist svo þegar þegar þær byrja að hegða sér eins og manneskjur? Það gæti komið þér í ástand þar sem þú upplifir stjórnsemi eða óöryggi og þú dragir þig til baka. 

Að mínu mati eru heilbrigð mörk að fá á hreint hvað er á milli ykkar raunverulega. Er þessi kona til í samband? Er hún til í að koma til móts við þig í að skipuleggja stefnumótin? Að setjast niður með þeim sem maður hefur verið að tala við í tvo mánuði til að ræða hvort tími sé kominn á að fara í samband, er eðlilegt og heilbrigt að mínu mati. 

Það gæti verið að þú þurfir að æfa þig í að annað fólk geri fyrir þig hlutina líka. En að mínu mati þá eru heilbrigð sambönd þannig að fólk gerir góða samninga um hversu oft það viljið tala saman. Hversu oft þið viljið hittast og hvort þið séuð þá að fara í samband. Ef þú vilt æfa þig í að fara í alvörusamband þá myndi ég gera þetta svona. 

Hluti af því að þú setjir sjálfum þér mörk felst í að passa upp á svefninn og daglegar venjur, hvort sem þú ert í sambandi eða ekki. Eins eru það góð mörk að forðast það að dagdreyma um kærustuna og fá staðfestingu um hvað er raunverulega í gangi á milli ykkar. 

Ég myndi hvetja þig til að taka upp símann eða bara að hittast til að ræða þessa hluti. Það er ekki eftir neinu að bíða og bara hollt og heilbrigt að taka stöðuna reglulega þegar kemur að ástarsamböndum. 

Að gera ráð fyrir mistökum

Það er að mínu mati mjög mikilvægt fyrir þig að losna við alla skömm og fullkomnunaráráttu þegar kemur að ástarsamböndum. Því í raun og veru ef þú skoðar samböndin í kringum þig þá eru allir að fást við einhver verkefni og enginn er alveg með þetta. Það eru rannsóknir að sýna og það er sannleikurinn. 

Að sjálfsögðu er til fólk sem hefur tileinkað sér ákveðna hæfni þegar kemur að því að elska sjálfan sig og annað fólk. En í góðum samböndum gerast alls konar hlutir. Kannski finnast fyrirmyndir á þessu sviði í umhverfinu þínu?

Ég myndi því hvetja þig til að halda áfram að æfa þig og ekki dæma sjálfan þig þó hlutirnir fari ekki alveg eins og þú ætlaðir þér. Ég er nokkuð viss um að allir eiga möguleika á að lifa góðu lífi, upplifa nánd og virðingu í ástarsamböndum. Stofna til fjölskyldu og að tilheyra öðru fólki í þessari veröld. 

Ef þú þarft stuðning að þessu leyti þá ekki hika við að leita til ráðgjafa. Ef þú ert að upplifa vanmátt í að fara í heilbrigt samband og ert að upplifa sama mynstrið aftur og aftur, þá eru til 12 spora samtök um allt á milli himins og jarðar. M.a. um meðvirkni og ástarsambönd. 

Gangi þér vel að fóta þig á þessu sviði og mundu að hamingjan býr innra með þér en ekki í öðru fólki. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is