Hvernig skiptist búið ef viðkomandi á hvorki maka né börn?

Ljósmynd/Franck

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem spyr út í erfðarétt. 

Sæll Sævar. 

Við erum þrjú alsystkin, eigum einnig fjögur hálfsystkini sem öll eru látin. Eitt af okkur þremur á ekki maka og engin börn og hefur ekki gert erfðaskrá. Hvernig er háttað skiptum dánarbús í ofangreindu.

Kveðja, E

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl E. 

Framgangur skipta ræðst af því hvort um er að ræða svokölluð einkaskipti eða opinber skipti. Ef ekki er ágreiningur á meðal erfingja er þeim heimilt að skipta dánarbúi í einkaskiptum. Þá þarf að liggja ljóst fyrir hverjir eru erfingjar og þurfa þeir að vera sammála allir sem einn um hvernig eignum og eftir atvikum skuldum dánarbúsins verður skipt. Þegar erfingjar hafa fengið leyfi til einkaskipta geta þeir ráðstafað eignum dánarbúsins. Erfingjar geta því selt eignir búsins, til dæmis hús og bíl og tekið út af bankareikningum þess. Þeir verða að gera þetta í sameiningu og jafnframt vera sammála um það hvað hver þeirra eigi að fá í sinn hlut.

Nú, ef ekki næst samkomulag milli erfingja um að sækja um leyfi til einkaskipta þurfa að fara fram opinber skipti á dánarbúinu. Þegar skiptastjóri hefur lokið við að greiða allar kröfur á hendur dánarbúi eða tekið frá fjármuni til þess að mæta þeim getur hann lokið opinberum skiptum með úthlutun til erfingja.

Úthlutun arfs við lok skipta, hvort sem um ræðir einkaskipti eða opinber skipti, lýtur svo ákvæðum erfðalaga, þar sem mælt er fyrir um arfshluta erfingja, þ.e. hvað hver erfingi fær í sinn hlut.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is