„Ætlaði ekki að svíkja eða særa hann“

Það geta allskonar hlutir komið upp í samböndum fólks.
Það geta allskonar hlutir komið upp í samböndum fólks. mbl.isl/Colourbox

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem á erfitt með að stoppa eiginmann sinn af í að rífast um fortíðina. Það hefur ýmislegt komið upp á í fortíðinni. 

Sæl Elínrós. 

Maðurinn minn til 23 ára er i sífellu að rifja upp samskipti mín við mann sem býr í okkar bæjarfélagi sem gerðust fyrir meira en 8 árum síðan. Vissulega litu þau ekki vel út og ég skammaðist mín mikið fyrir þau þrátt fyrir að tilgangur minn hafi aldrei verið að svíkja eða særa hann. Ég einhvernvegin tók þátt í daðri án þess að ætla mér það og leit á þennan mann sem félaga og taldi mig vera að taka þátt í gríni frekar en eitthvað annað.  Ég laðast ekki að þessum manni. Eiginmaður minn hefur í gegnum árin mörgu sinnum stundað það að rjúka út að djamma og skilað sér oft heim illa drukkinn undir morgun. Þrátt fyrir að sú hegðun hafi svo til hætt þá var honum fyrirgefið á sínum tíma ansi margt og finnst mér mjög skítt af honum að hanga svona á þessu. Hef líkast til rifist yfir þessu við hann í yfir 300 skipti á undanförnum árum. Beðið hann afsökunar og tekið af honum loforð um að láta af þessu vantrausti í minn garð. Án árangurs. Hvað er til ráða ef eitthvað?

Kveðja, B

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir spurninguna. 

Það sem er til ráða ykkar á milli að mínu mati er að vinna með fagaðila í að gera nýtt samkomulag um sambandið ykkar í framtíðinni. Ég mæli með að þið vinnið í ykkur í sitthvoru lagi og takið síðan uppgjörstíma þar sem þið takið ábyrgð á hegðun ykkar í fortíðinni og semjið um að fara inn í framtíðina á nýjum forsendum. 

Allskonar hlutir gerast í samböndum og heilbrigð samskipti gera ráð fyrir því. Enginn er fullkominn í þessu lífi. 

Að taka þátt í daðri og að fara út af heimilinu á djamm og koma svo drukkinn heim að maður getur ekki munað hvað maður gerði eða sagði er ekki í lagi að mínu mati. Þetta er hegðun sem þarf að stoppa. Ef þessi hegðun hjá ykkur báðum hefur stoppað, þá er stór hluti vandans frá. En eftir situr samskiptin ykkar og sú leiðsögn sem þið þurfið í að vera raunverulega náin hvort öðru og góð við hvort annað. 

Að vinna í sér til að laga samskiptin sín er skemmtilegt ferðalag að mínu mati. Fólk kynnist sjálfum sér betur, hvernig mörk það vill setja og hvað það hefur gaman af að gera í lífinu. 

Sambönd eiga að vera rjóminn ofan á ísinn. Ekki ísinn sjálfur. Þegar við erum farnar að nota samböndin okkar til að halda okkur niðri eða þau eru farin að meiða okkur þannig að við verðum verri mæður eða starfskraftar er kominn tími til að vinna í sjálfsvirðingunni og að setja heilbrigð mörk.  

Margir kunna bara alls ekki að sýna nánd eða að biðja um nánd í ástarsamböndum. Sumir byrja að rífast til að fá athygli á meðan aðrir fara þegar stemningin verður skrítin. 

Svo er til fólk sem er svo illa statt í lífinu að það þarf þjálfun til að líða vel í ástarsamböndum sem eru heilbrigð. Þetta er ástæðan fyrir því að sumar konur forðast góðu mennina og sumir menn velja sér veikar konur að vera með. Þetta jaðrar stundum við spennu- og sársaukafíkn. 

Lífið er alltof stutt og skemmtilegt til að eyða því í að rífast við þá sem maður hefur ákveðið að elska. 

Gangi ykkur sem best. 

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is