Ertu að harka af þér rétt þinn til bóta?

Andrea Valgeirsdóttir lögfræðingur starfar hjá Lagarök lögmannsstofa.
Andrea Valgeirsdóttir lögfræðingur starfar hjá Lagarök lögmannsstofa.

„Í gegnum tíðina hef ég hitt og rætt við fólk sem sér eftir því að hafa ekki leitað réttar síns til slysa- eða skaðabóta vegna slysa sem það hefur orðið fyrir. Ástæðurnar fyrir því að fólk leitar ekki réttar síns eru af ýmsum toga. Þær ástæður sem ég heyri oftast eru þær að tjónþola finnst þetta hafa verið svo smávægilegt slys til dæmis ekki svo hörð aftan á keyrsla, meiðslin ekki það alvarleg og/eða að tjónþola þykir jafnvel aumingjaskapur að gera eitthvað mál úr því og harkar þetta af sér,“ segir Andrea Valgeirsdóttir lögfræðingur hjá Lagarökum í sínum nýjasta pistli: 

Svo kemur það á daginn að einkennin eru enn til staðar mörgum árum seinna, jafnvel orðin verri og viðkomandi þá búinn að tapa rétti sínum til bóta. Mjög mikilvægt er að leita til læknis og að tilkynna um líkamstjón til tryggingafélags vegna umferðarslyss eins fljótt og unnt er. Það er undir tjónþola komið að sanna tjón sitt og ef hann leitar ekki til læknis fljótlega í kjölfar slyss þá getur orðið erfitt að sanna að meiðsl séu til komin vegna umrædds slyss eða jafnvel að hann hafi orðið fyrir einhverju slysi yfir höfuð sé það hvergi skráð.

Einnig hef ég orðið vör við það þegar um vinnuslys er að ræða að tjónþola finnist hann vera að gera vinnuveitanda sínum einhvern grikk með því að leita réttar síns og telur jafnvel að vinnuveitandinn þurfi að greiða bætur úr eigin vasa. Vinnuveitendum ber skylda til að vera með slysatryggingu launþega samkvæmt gildandi kjarasamningum. Tryggingin gildir að jafnaði vegna slysa á vinnustað og á beinni leið til eða frá vinnu.Mjög mikilvægt er að tilkynna slysið strax, t.d. til Vinnueftirlits ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags.

Í sumum tilvikum getur verið mikilvægt að leita til lögfræðings til að fá aðstoð við að leita réttar síns því það er oft að mörgu að huga og í einhverjum tilvikum þarf að skjóta málum til Úrskurðanefndar í vátryggingamálum. Upp getur komið ágreiningur um hvort slys falli undir hugtök eins og til dæmis þegar um umferðarslys er að ræða hvort slysið falli undir hugtakið notkun bifreiðar en það hugtak er mjög teygjanlegt. Dómstólar hafa til dæmis skilgreint það sem notkun bifreiðar þegar ökumaður bifreiðar var að dæla lofti í hjólbarða bifreiðarinnar. Hjólbarðinn sprakk skyndilega og ökumaður bifreiðarinnar þeyttist frá bifreiðinni og varð fyrir íkamstjóni. Nú er það almennt viðurkennt að það að sinna almennu viðhaldi bifreiðar teljist til notkunar hennar og slys sem verða við það falla þvi undir slysatryggingu ökumanns og eiganda. Upp getur komið ágreiningur um hvað teljist til beinnar leiðar til og frá vinnu og hafa dómstólar sem dæmi skilgreint það sem eðlilegan þátt í akstri frá vinnustað að heimili þegar stoppað er á bensínstöð á heimleið.

mbl.is