Hefur fengið eina fullnægingu á 14 árum

Konan hefur bara fengið fullnægingu einu sinni í 14 ár.
Konan hefur bara fengið fullnægingu einu sinni í 14 ár. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Kona sem hefur verið gift eiginmanni sínum í 15 ár er mjög óánægð með kynlíf þeirra hjóna. Hún laðast ekki kynferðislega að eiginmanninum og hefur bara fengið 1-2 fullnægingar á síðustu 14 árum. Hún veltir fyrir sér möguleikanum að halda fram hjá honum og spyr ráðgjafa The Guardian ráða.

„Ég elska kynlíf, en við eiginmaðurinn höfum ekki náð saman kynferðislega síðastliðin 15 ár. Við eigum gott samband, þrjú börn, styðjum við bakið hvort á öðru og eigum fullt af vinum, en kynlífið er dapurlegt. Mér hefur aldrei fundist líkami hans kynþokkafullur og hann hefur aldrei gert það fyrir mig. Ég valdi að stunda ekki kynlíf í sjö ár áður en ég gifti mig og við biðum þangað til rétt fyrir brúðkaupið þannig að ég hafði ekki hugmynd um að þetta yrði svona slæmt.

Á þessum fjórtán árum hef ég fengið eina (kannski tvær) fullnægingu með honum. Ég þóttist alltaf fá fullnægingu en áttaði mig á að það hjálpaði ekkert. Hann er mjög fullnægður og talar oft um það, sem pirrar mig. Ég er búin að reyna að tala við hann um þetta í gegnum árin en hef þá fengið alls konar svör, allt frá „það er ekkert að mér, ef þú gerðir það oftar með mér myndi þetta lagast“ yfir í að hann reynir að gera það sem ég bið hann um einu sinni og fer svo yfir í að gera hlutina á sína vegu. Eða hann gerir það sem ég bið hann um alltaf þangað til ég fæ leið á því og finnst það ekki gott lengur. 

Tilhugsunin um að tala við hann um þetta er hræðileg og ég er þreytt. Ég rakst á gamlan kærasta um daginn og bara tilhugsunin um hann kallaði fram tilfinningar sem ég get ekki hrist af mér. Þannig að núna er ég ófullnægð, kynferðislega pirruð, reið og gröm ... og satt best að segja er ég að íhuga að halda fram hjá honum. Hjálp!“ segir konan. 

„Ég ætla ekki að segja þér að halda ekki fram hjá honum, en þú veist líka hversu áhættusamt það er. Þú veist líka að þú giftist einhverjum sem þú laðast ekki að kynferðislega svo þú verður að axla ábyrgð á því. Ef það er engin kynferðisleg löngun í byrjun hjónabands kemur hún vanalega ekki seinna meir. 

Það er ekki skrítið að möguleikinn sem birtist þér nýlega hafi minnt á það sem þú ert að missa af. Þú útskýrðir ekki fyrir mér af hverju þú ákvaðst að stunda ekki kynlíf í sjö ár, en ég geri ráð fyrir að þú finnir vísbendingar um af hverju þú ert í þessari stöðu þar. Skoðaðu sögu þína, djúpar tilfinningar og hvað drífur þig áfram, helst með góðum ráðgjafa, því það mun hjálpa þér að skilja líf þitt og finna svör. Þú ert ekki eina manneskjan sem stendur frammi fyrir ólýsanlega erfiðum ákvörðunum, en þú getur ákveðið hvað er mikilvægast og hvernig þú átt að standa vörð um það,“ segir Pamela Stephenson Connolly.

mbl.is