Erfitt að halda áfram að lifa

Meðvirkni og áföll í æsku geta valdið mikilli vanlíðan hjá …
Meðvirkni og áföll í æsku geta valdið mikilli vanlíðan hjá fullorðnum einstaklingum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að reyna að finna leiðir til að lifa lífinu sem hana langar. Hana langar að læra að treysta öðru fólki og tengjast því, en á erfitt með það sökum uppeldisins sem hún fékk. 

Sæl

Hvernig er hægt að treysta og tengjast öðrum á heilbrigðan hátt eftir annars mjög óheilbrigt uppeldi? Í mínu tilfelli föður sem drakk og tilfinningalega fjarlægrar móður. Á erfitt með að horfast í augu við eigin tilfinningar og deila þeim með öðrum þar sem allt var kæft og hunsað í æsku. Er að vinna í meðvirkninni minni sem gengur hægt og er mjög reið í dag yfir hvernig samskiptin þróuðust eða heldur þróuðust ekki á heimilinu. Eftir að hafa farið í gegnum lífið í „survival mode“ get ég ekki meir. Skil af hverju mér líður illa yfir þessu og af hverju ég hef þróað svona mikla meðvirkni en ég næ ekki friði innra með mér og sátt svo ég geti haldið áfram að lifa eða byrjað að lifa því lífi sem mig langar að lifa. Hver er leiðin? 

Með fyrirfram þökk, 

B

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl B. 

Takk fyrir mjög þarft og gott erindi. 

Málefni fullorðinna barna alkóhólista eru mér mjög hugleikin því ég deili svipaðri reynslu og þú. Eins finnst mér ekki nógu mikið talað um áhrif þess í opinberri umræðu. 

Mín skoðun er að þú öðlist bata á þessu sviði annars vegar með því að fara í 12 spora samtök um meðvirkni og hins vegar með því að skoða ástamál þín og vinasambönd með sérfræðingi. Eins eru til 12 spora samtök um ástina líka og færir sérfræðingar sem geta unnið með þér í áföllum (EMDR er góð leið til þess að kafa dýpra). 

Það er eðlilegt að mínu mati að einstaklingur sem fær ekki skilyrðislausa ást í æsku eigi erfitt með að elska sjálfan sig af fullum krafti. En þetta er ákvörðun sem hægt er að taka og vinna í með öðru fólki. 

Það sem ég mæli með er að fara í langtímameðferð hjá sérfræðingi þar sem þú ferð yfir hugsanir þínar, markmið og vanmátt við að tengjast þér sjálfri og öðru fólki. Eins er gott að skoða hegðun í þessu samhengi. Gerirðu eitthvað á hverjum degi sem er ekki það sem þú værir að gera í lífinu sem þig dreymir um að eiga?

Ég trúi því að það sem við hugsum verði það sem við segjum. Síðan trúi ég því að það sem við segjum verði það sem við gerum. Það sem við síðan gerum verður svo aftur hluti af persónuleika okkar, örlögum og framtíð.

Af því þú spyrð hver leiðin sé þá langar mig að segja að ég trúi að þú sért á réttri leið en þurfir bara að halda áfram. Þú ert að skrifa niður hvernig þér líður, beskjalda þig og biðja um aðstoð. Það finnst mér vel gert. 

Næsta skref er bara að halda í fúsleikann og mæta á staðina sem þú ákveður að fara á í framhaldinu. Reyndu að finna þér fólk að vinna með sem dæmir þig ekki, ber virðingu fyrir þér og hlustar á þig. 

Gangi þér alltaf sem best. Ekki gefast upp!

Hamingjan býr innra með þér og tilgangur lífsins að mínu mati að finna hana. 

Kær kveðja, 

Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is