„Sú sem hann hélt framhjá með er rosalega ósmart“

Þegar að áföll gerast í einkalífinu er mikilvægt að staldra …
Þegar að áföll gerast í einkalífinu er mikilvægt að staldra við og vita hvað maður vill gera. Enginn ætti að fara einn og óstuddur í gegnum slík tímabil. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem var að komast að framhjáhaldi eiginmanns síns. 

Sæl. 

Ég komst að því í fyrra að maðurinn minn hefur verið að halda framhjá. Mig langaði helst til að henda honum út en virðist vera orðin háð því að meiða mig í samskiptum við hann.

Skvísan sem hann hélt framhjá mér með er rosalega ósmart. Hann virðist vera með smekk fyrir þannig konum. 

En við vorum með samning um hvað við vildum gera og ekki gera í sambandinu sem hann var að brjóta. 

Hér á árum áður þótti ég frekar vænlegur kostur, en það virkar eins og ég hafi fundið mér eina manninn á ballinu sem var ekki alveg viss með mig. 

Hvað get ég gert? Býðurðu upp á námskeið eða eitthvað fyrir konur sem eru í samböndum sem eru að fara með þær?

Bestu kveðjur, V.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl V.

Mér þykir leitt að heyra hvað þú hefur þurft að ganga í gegnum að undanförnu. Það er alltaf mikið áfall að fara í gegnum svona reynslu. 

Ég vil hvetja þig til að fara í ráðgjöf hjá sérfræðingi og ræða við hann hvernig þér líður. Það þurfa allir mikinn stuðning þegar þeir hafa komist að því að einstaklingurinn sem þeir hafa ákveðið að elska í lífinu er með þráhyggju út fyrir sambandið. 

Ef þú ert á þeim stað að þig langar í uppbyggingu og að verða sterkari fyrir þig þá er ég með gott námskeið í þessum mánuði sem heitir: Lífið eins og ég vil hafa það. Námskeiðið er hugsað fyrir einstaklinga sem vilja gera róttækar breytingar á lífi sínu. 

Róttæk breyting að mínu mati er þessi hugmyndafræði að einmitt viðurkenna vanmátt sinn og prófa að stíga inn í öðruvísi hugsun um sjálfan sig og aðra. 

Þú ert svo sannarlega ekki eina konan sem hefur þá valið þér þann eina sem var ekki alveg viss með sambandið en ég myndi hvetja þig til að skoða hvað liggur á bak við þá hugsun. 

Ég er sammála kenningum Kelly McDaniel um móðurhungur sem ástæðu þess að konur leita oft í menn sem eiga erfitt með að skuldbinda sig í sambandi. Einnig er til áhugaverð gömul bók sem útskýrir mikilvægi þess að eiga góðan föður – fyrir sambandsgetu kvenna á fullorðinsárum. Bókin heitir Fathers and Daughters og er eftir William Appleton. 

Þótt það geti tekið langan tíma að jafna sig eftir uppákomur svipaðar þeim sem þú lýsir, þá er mikilvægt að vita að það er hægt. Það ætti enginn að verða veikur af samskiptum við annað fólk, en því miður er það oft veruleikinn. 

Það sem gott er að hafa hugfast í aðstæðunum sem þú ert í er að batinn felur í sér að skoða fortíðina. Að æfa sig í að treysta fólki sem hægt er að treysta og halda áfram að finna leiðir til að taka vanmátt annars fólks ekki persónulega. 

Svo já, komdu á námskeið. Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að velta fyrir sér hverju maður þarf að gefast upp á í lífinu til að öðlast lífið sem mann langar að lifa. 

Þú getur aldrei breytt öðrum og því er gott að spyrja: Ef ég er viss um að það sé til nóg af ást, peningum og hamingju fyrir mig í heiminum en það kemur ekki til mín núna – hverju ætli ég þurfi að breyta?

Bestu kveðjur til þín, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is