Stefnir í gjaldþrot vegna 750 þúsund króna fæðingar

Javier De La MAza/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er ósáttur við að þurfa að borga 750.000 kr. fyrir fæðingu barns síns. 

Sæll Sævar.

Aðstæður mínar eru slíkar að verið er að herja á mig sökum skulda sem ég kom mér í til að eignast barnið mitt í mínu eigin landi. Konan mín er frá Mexíkó og var ekki komin með íslenskan ríkisborgararétt svo við þurftum að borga allt á uppsprengdu verði.

Fæðingin kostaði 750.000 sem ég gat ekki borgað svo það hafa safnast ofan á hana vextir. Ég vil ekki borga fyrir að fæða mitt eigið barn í mínu eigin landi, en ég hef áhyggjur af að þessi skuld muni hækka og hækka og enda á að gera mig gjaldþrota.

Get ég gert eitthvað í þessu máli?

Kveðja, A.

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll.

Í 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar er fjallað um það hverjir teljist sjúkratryggðir samkvæmt lögunum. Þar segir að sjúkratryggður sé sá sem er búsettur á Íslandi og hafi verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta var óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, en með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. 

Meginreglan er því sú að einstaklingar öðlast ekki rétt til sjúkratrygginga fyrr en þeir hafa verið búsettir hér á landi í sex mánuði, og þá eingöngu frá og með þeim tíma, þ.e. rétturinn er ekki afturvirkur. 

Reglan er því sú að fæðingaraðstoð við ótryggðar mæður hér á landi fellur ekki undir íslenskar sjúkratryggingar. Reglur um sjúkratryggingar eru nokkuð skýrar hvað þetta varðar og snúast um það hvort viðkomandi uppfylli ofangreind skilyrði og sé tryggður þegar að fæðingu kemur. 

Í framkvæmd hefur verið litið svo á að barn í móðurkviði hafi ekki sjálfstæðan tryggingarétt heldur fellur fæðingin undir þjónustu við móðurina, svo það er tryggingastaða hennar sem gildir. Sé viðkomandi ekki tryggður, svo sem ráða má af fyrirspurn þinni, fellur hann ekki undir íslenskar sjúkratryggingar.

Varðandi kröfuna sem er til innheimtu mæli ég eindregið með að þú leitir aðstoðar lögmanns í því skyni að semja um hana.  

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR

mbl.is

Bloggað um fréttina