„Get ekki hleypt karlmanni aftur að mér“

Það getur verið erfitt að komast yfir skilnað. Sér í …
Það getur verið erfitt að komast yfir skilnað. Sér í lagi ef sá sem þú deildir ástinni með var ekki á staðnum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem upplifði að fyrrverandi fór frá henni fyrir aðra konu. Hún á erfitt með að hleypa öðrum mönnum að sér út af þessari reynslu. 

Sæl Elínrós

Mig langaði að fá á hreint hvað er að mér. Minn fyrrverandi fór út af annarri konu fyrir nokkrum árum. Ég hef verið ein síðan þá. En afskaplega er það leiðinlegt og mér finnst það mjög sorglegt því ég er ekki orðin fertug og held ég að ég muni aldrei geta hleypt neinum karlmanni nálægt mér aftur. Ég hef reynt en alltaf er ég fljót að láta mig hverfa og verð svo reið og bitur út í minn fyrrverandi fyrir að láta mér líða eins ég skipti engu máli.

Tek það fram að ég er búin að vinna alveg helling í sjálfri mér á þessum árum. En þetta er bara of stór biti; að sætta mig við að ég verði ein út lífið!

Hvað get ég gert, á ég bara að sætta mig við þetta?

Kveðja, B.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið þitt. 

Það sem þú hefur farið í gegnum er lífsreynsla sem tekur langan tíma að vinna sig út úr að mínu mati. Sér í lagi ef þetta var einstaklingur sem gaf þér mikla athygli í byrjun. Lofaði þér að hann myndi elska þig út lífið og var góður í að láta þig vita hversu sérstök þú værir í byrjun sambandsins. Síðan kynntist hann þér og varð fjarlægur og endaði sambandið með því að byrja að elska annan aðila með ástinni sem hann lofaði þér. 

Þetta er frekar klassískt mynstur, sem skilur þann sem eftir situr eftir með tilfinninguna um að hann skipti engu máli. 

Nú hef ég lítið til að vinna úr, en af því þú spyrð hvað sé að þér, þá langar mig að hvetja þig til að lesa The Betrayal Bond eftir dr. Patrick Carnes sem gefin var upphaflega út á tíunda áratug síðustu aldar. Bókin er einnig til á Audible og er þægilegt að hlusta á hana og punkta niður atriði úr spurningum og listum sem þessi einstaki fræðimaður setur í bókina sína.

Það eru fjölmargir færir sálfræðingar í landinu sem kunna að vinna með grunnhugmyndir og tengsl (e. core beliefs, attchments), áföll og atburði sem verða í kjölfar skilnaðar. 

Ég hef séð marga í þínum sporum sem leita sér ekki aðstoðar og fara þá í gegnum lífið í eins konar ástarmegrun. Svo getur það alltaf gerst að særður einstaklingur endar á því að særa annað fólk. Svo ekki vanmeta áhrifin sem þú getur haft á aðra karlmenn. 

Það eru til alls konar tólf spora samtök þar sem þú getur unnið í þér með fólki sem hefur upplifað það sama og þú. Ég er á því að það sé gott meðfram því að vinna með sérfræðingum. 

Ég aðhyllist þær kenningar að hina eina/eini rétti sé ekki til. Hins vegar getum við þjálfað okkur upp í að verða mjög fær í að viðhalda okkar hluta í góðu sambandi. Kúnstin er svo að sjálfsögðu að finna sér einhvern sem getur mætt okkur á miðri leið. 

Grunnurinn að góðum samböndum að mínu mati er svo alltaf að kynna sig inn í samböndin sem maður er í. Halda sig við að hugsa um þann sem maður er með í sambandinu. Kunna að setja sjálfum sér og öðru fólki mörk. Vera með sambandssamning, þannig að það sé frekar skýrt hvað sambandið á að fela í sér. Góð regla er svo alltaf að horfa á hvað fólk gerir í samböndum meira en að hlusta á hvað það segir.  

Mundu samt að þú ert aðalleikonan í þínu lífi svo settu athyglina fyrst og síðast á sjálfa þig, börnin þín, heimilið, vinnuna og síðan ætti góður kærasti að vera skemmtileg viðbót við lífið, en ekki lífið sjálft.

Gangi þér vel.

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is