Ert þú hrædd/ur við höfnun?

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.

„Höfnun eða hræðsla við hugsanlega höfnun er algengt þema í samtalsmeðferð. En flestöll erum við hrædd við að fá einhvers konar höfnun. Höfnunartilfinning á sér margar birtingarmyndir og getur verið í formi þess að fá ekki vinnuna sem maður sótti um, vera ekki boðið með á viðburði í vinahópnum, erfið samskipti við foreldri, Tinder-stefnumótið hefur ekki samband aftur, þora ekki bjóða á stefnumót af ótta við að fá nei eða í gegnum sambandsslit svo fátt sé nefnt,“ Þórey Kristín Þórisdóttir, sál­fræðing­ur og heil­su­markþjálfi, í sín­um nýj­asta pistli: 

Það er okkur eðlislægt sem manneskjum að þrá að vera elskuð og metin að þeim verðleikum sem við höfum. Höfnunartilfinning er sársaukatilfinning, og við reynum oft að forðast sársauka eins og við getum.

Það sem ég heyri langoftast í samtalsmeðferðum er að viðkomandi á erfitt með að horfast í augu við hugsanlega höfnun. Það er samt sem áður mikilvægt að vinna með tilfinningar sínar og þennan sársauka og hugsanlega höfnunartilfinningu.

Oft og tíðum tengist ótti við höfnun því að við þurfum að berskjalda okkur og gefa í skyn að við séum með einhvers konar tilfinningar í garð viðkomandi, eða að við viljum vera meira metin í vinnunni. Ekki er langt síðan ég stóð frammi fyrir þessum tilfinningum sjálf og ég komst að þeirri niðurstöðu að óvissan er mun verri en hugsanleg höfnunartilfinning.

Að vera í óvissunni hvort yfirmaður þinn vill gefa þér launahækkunina sem þú vilt eða að einhver sem þú ert hrifin/n af vill koma með þér á stefnumót er oft mjög stressandi eitt og sér. Þá veldur óvissan ekki eingöngu óöryggi og kvíða oft á tíðum heldur er hún einnig mikill tímaþjófur og tekur oft óþarfa orku.

Þá er einnig vert að spyrja sig hvort viðkomandi var virkilega að hafna þér persónulega? Það tekur tíma að kynnast og það er ekki hægt að kynnast í gegnum eitt stefnumót. Þó svo að stefnumótin verði nokkur þá eiga margir oft erfitt með að vera 100% þeir sjálfir í byrjun. Þannig að ekki taka það of persónulega ef stefnumótið skrifar ekki aftur. Hugsaðu frekar að það er þeirra missir, enda þekkir þú þig best og veist hvaða verðleika og styrkleika þú hefur upp á að bjóða.

Að finna og upplifa sársauka vegna höfnunar er samt sem áður heilbrigt viðbragð en það getur samt sem áður lagst þungt á sjálfstraust okkar. Þá er vert að muna að við erum í lagi eins og við erum. Við ráðum sjálf hversu mikið vald þetta á að hafa yfir okkur. Að geta talað um tilfinningar sínar og verið berskjaldaður fyrir tilfinningum sínum er hluti af þroska og heilun. Allt sem er óþægilegt og við horfumst í augu við missir mátt sinn og verður hluti af andlegum þroska.mbl.is