Eignaðist barn með hjákonunni en vill ekki sleppa eiginkonunni

Það gengur ýmislegt á í íslenskum fjölskyldum.
Það gengur ýmislegt á í íslenskum fjölskyldum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá giftum manni sem á konu og barn í öðru landi. 

Sæl. 

Ég hef verið giftur sömu konunni í 12 ár og við eigum tvær dætur, 11 og 8 ára og allt gengið vel. Við erum bæði um fertugt og í góðum stöðum hér heima. Fyrir þremur árum fór ég í viðskiptaferð til Noregs og hitti þar konu. Til að gera langa sögu stutta hef ég átt i sambandi við hana síðustu þrjú ár og við eigum eina dóttur saman. En enginn veit neitt um þetta hér og sú norska hefur veitt mér mikið svigrúm en er orðin langþreytt á feluleiknum. Málið er að ég vil hvoruga missa. Ég vil hafa þær báðar í lífi mínu en ég veit ekki hvernig ég á að segja eiginkonu minni þetta. Þær hafa hist en eiginkona mín hefur ekki hugmynd um samband okkar. Mér líður illa yfir þessu en samt vil ég ekki fórna neinu.

Hvað get ég gert?

Kveðja, E

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll og takk fyrir bréfið. 

Það eina sem þú getur gert í stöðunni að mínu mati er að taka ábyrgð, taka ákvörðun og reyna svo að skilja hvernig málin þróuðustu í þessa veru.

Ást er ákvörðun en ekki tilfinning og sýnum við ást með því að standa við skuldbindingarnar sem við gerum í lífinu. 

Staðan sem þú ert í - að vera í virkri forðun í hjónabandi, er andstæðan við ást að mínu mati. Ég mæli með bókinni Is it Love or is it Addiction til að skilja það viðhorf betur. 

Ekki hika við að finna þér góðan sérfræðing að vinna með sem getur aðstoðað þig í þessu flókna máli. Ég mæli með að skoða gildin þín, barnæskuna, geðtengsl, áföll í æsku, meðvirkni og langanir þínar og drauma. 

Það getur enginn nema þú tekið ákvörðun fyrir þig í þessu máli. En hafðu hugfast að einu einstaklingarnir sem vita ekki hvað er í gangi, er eiginkona þín og börnin þín. Það eru líklegast einstaklingarnir sem þú vildir helst af öllu ekki misstíga þig gagnvart og líklegast þau sem munu fá mesta áfallið. 

Hver dagur í þessu lífi er ótrúlega dýrmætur. Ég vona að þú finnir leið til þess að verða besta útgáfan af þér sem völ er á. Stór hluti af því að þroskast í lífinu og mæta inn í það að fullum krafti er að kunna að vera heiðarlegur, standast freistingar, segja nei, setja sig í spor annarra, taka ábyrgð og nota styrkleika sína og skilja brestina. 

Gangi þér sem best.

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is