Fá börnin engan arf ef eiginkona situr í óskiptu búi?

Roberto Nickson/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem spyr út í setu í óskiptu búi. 

Sæll og takk fyrir góð skrif,

í málinu um eiginkonu sem situr í óskiptu búi ferðu yfir hver er hlutur barna og eftirlifandi maka og einnig hvernig er hægt að breyta skiptingunni. En hver er staðan þegar ekkjan, stjúpmóðirin og ekki móðir erfingjanna, situr í óskiptu búi. Fá þá börn þess látna engan arf eftir föður sinn ef ekkjan sem situr í búinu selur til dæmis ekki húsið meðan hún lifir? Er ekki miðað við eignir þess látna á dánardegi? Telst það ekki með ef eignir eru seldar og gefnar meðan arfleiðandinn háir sitt veikindastríð á sjúkrahúsum?

Kveðja, N

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl N.

Eignir í óskiptu búi eru hjúskapareignir beggja, þ.e. hins látna og eftirlifandi maka. Sjálfsaflafé og annað verðmæti hins langlífara fellur til óskipta búsins nema það sé gert að séreign eftirlifandi maka. 

Eftirlifandi maki hefur eignarráð á fjármunum búsins og getur ráðstafað þeim að vild. Þó ekki þannig að heimild sé til þess að sóa fjármununum. Langlífari maki getur ekki rýrt efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn. Jafnframt ber langlífari maki ábyrgð á skuldum hins látna.

Lok óskipts bús getur komið til með eftirfarandi hætti. Langlífari maki getur krafist skipta á óskiptu búi hvenær sem er og þá er búinu skipt samkvæmt erfðareglum og langlífari maki fær makaarf í sinn hlut, þ.e. 1/3 hluta eigna, sbr. 2. gr. erfðalaga nr. 14/1962. Ef langlífari maki situr í óskiptu búi til dánardags, fellur niður lögmæltur erfðaréttur hins langlífara eftir hið skammlífara. Ef enginn á tilkall til arfs eftir langlífara, renna eignir til erfingja hins skammlífara. Erfingjar geta þá krafist skipta á óskiptu búi ef engin erfðaskrá er til staðar sem kveður á um leyfi eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi. 

Gangi þér vel.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is